Föstudagspistill 25. október 2019

Efling sveitarstjórnarstigsins

Undanfarnar vikur hafa málefni sveitarstjórnarstigsins verið talsvert til umfjöllunar í samfélaginu. Um miðjan ágúst birti Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið drög að þingsályktunartillögu í samráðsgátt stjórnvalda, sem fjallar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Samband íslenskra sveitarfélaga boðaði til aukalandsþings í byrjun september s.l., en eina málið á dagskrá þingsins var að fjalla um þingsályktunartillöguna. Landsþingið samþykkti að mæla með því að Alþingi samþykki fyrirliggjandi þingsályktunartillögu. Stefnumótunin nær yfir tímabilið 2019 – 2033, en einnig fylgir aðgerðaráætlun fyrir árin 2019 – 2023. Tillagan gerir ráð fyrir umtalsverðri fækkun sveitarfélaga frá því sem nú er. Gert er ráð fyrir að þessum markmiðum verði náð með því að lögfesta lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga, þannig að þeir verði að lágmarki 250 árið 2022 og 1.000 árið 2026.

Öll sveitarfélögin fjögur á Suðurnesjum hafa fleiri íbúa en 1.000, svo áhrifa þessarar lagasetningar mun ekki gæta hér á okkar svæði. Á hinn bóginn er ekkert því til fyrirstöðu að sveitarfélögin skoði sjálf sín á milli, hvort frekari sameining sveitarfélaga í landshlutanum sé fýsilegur kostur. Nærtækt er að líta til nýlegrar sameiningar Garðs og Sandgerðis, sem nú heitir Suðurnesjabær. Sameinað sveitarfélag er með ríflega 3.500 íbúa, sem gerir þá stjórnsýslueiningu mun öflugri en forverana til að takast á við þau vandasömu og umfangsmiklu verkefni sem sveitarfélag þarf að sinna. Umræða um eflingu sveitarstjórnarstigsins mun án efa verða áberandi á næstu misserum. Hlutverk sveitarstjórna er að leita hagkvæmustu leiða til að hámarka nýtingu opinbers fjármagns og veita íbúum sínum góða þjónustu. Það á vitaskuld við um allar sveitarstjórnir, óháð íbúafjölda.

Vetrarfrí grunnskólans

Nemendur Stóru-Vogaskóla eru nú í vetrarfríi. Undanfarin ár hefur allt vetrarfríið verið tekið að hausti, og í heila viku. Þetta fyrirkomulag hefur mælst vel fyrir, jafnt hjá nemendum, foreldrum og kennurum. Það verða því væntanlega hressir, kátir og vel endurnærðir nemendur, kennarar og annað starfsfólk skólans sem koma til starfa í skólanum á ný n.k. mánudag.

Vígsla þjónustumiðstöðvar

Það styttist í verklok við byggingu nýrrar og glæsilegrar þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins. Framkvæmdum utanhúss er nú því sem næst öllum lokið, en unnið er nú að lokafrágangi innanhúss. Verklok samkvæmt verksamningi eru í lok nóvember. Ekki  verður annað séð en að sú tímasetning standist. Stefnt er því að formleg vígsla hússins verði á fullveldisdaginn, sunnudaginn 1. desember. Þá munum við hafa opið hús og bjóða bæjarbúum að líta við, þiggja veitingar og skoða hið glæsilega mannvirki. Eins og áður hefur komið fram mun þjónustumiðstöðin einnig hýsa slökkvibíl frá Brunavörnum Suðurnesja, sem verður kominn á staðinn þegar vígslan fer fram. Síðast en ekki síst tökum við í notkun langþráð þvottaplan fyrir almenning, þótt ekki sé víst að viðri til bílaþvotta á þessum tíma árs.

Að lokum  Á morgun (laugardag) er fyrsti vetrardagur. Sá dagur markar upphaf Gormánaðar, sem er fyrsti mánuður vetrar samkvæmt hinu forna tímatali. Veturinn er sannarlega genginn í garð, eins og veðurfarið ber með sér. Ég óska öllum góðrar helgar og sól í hjarta. Góðar stundir!

 

Getum við bætt efni síðunnar?