Föstudagspistill 22. mars 2019

Hagstæð tilboð í verk

Föstudaginn 15. mars s.l. voru opnuð tilboð í þrjú verk á vegum sveitarfélagsins. Um er að ræða endurnýjun á norðurhluta Kirkjugerðis, framkvæmdir á og við tjaldsvæðið sveitarfélagsins og endurnýjun yfirborðs Stapavegar. Alls bárust 5 – 6 tilboð í hvert verk. Sú ánægjulega niðurstaða varð að lægstu tilboð í öll verkin þrjú voru lægri en kostnaðaráætlun. Lægstu tilboð voru á bilinu 80 – 85% af kostnaðaráætlun, þannig að heildarfjárhæðin í verkin þrjú reyndust vera um 9 m.kr. undir kostnaðaráætlun. Bæjarráð fjallaði um niðurstöður útboðanna í vikunni, og heimilaði að gengið yrði til samninga við lægstbjóðendur á grundvelli tilboða þeirra. Það voru verktakafyrirtækin Ellert Skúlason ehf. og Jón og Margeir ehf. sem voru með lægstu tilboð í verkin. Framkvæmdir við tjaldsvæðið hefjast innan skamms, en því verki á að vera lokið fyrir lok maí. Hin verkin tvö verða unnið síðar í vor og í sumar.  

 Styttist í opnun nýrrar heimasíðu

Hönnun og forritun nýrrar heimasíðu sveitarfélagsins hófst á síðasta ári. Nú er verið að leggja lokahönd á verkið, með því að fínpússa útlitið og koma öllum gögnum á réttan stað. Á allra næstu dögum fara prófanir fram, svo tryggt sé að allt virki sem best þegar síðan fer í loftið. Óhætt er að fullyrða að gestir heimasíðu sveitarfélagsins eigi eftir að sjá mikinn mun frá núverandi heimasíðu, en hún hefur verið við lýði um langt skeið og er að vissu leyti barns síns tíma. Ráðgert er að nýja heimasíðan fari í loftið nú um mánaðamótin, þ.e. í lok næstu viku. Það er von mín að hin nýja heimasíða eigi eftir að falla notendum hennar vel í geð og að hún verði raunverulegt framfaraskref. Með nýrri heimasíðu munum við enn auka áherslu á rafræna stjórnsýslu, sem bætir þjónustuna og eykur skilvirknina.

Ályktun um Jöfnunarsjóð

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur nýlega vakið athygli á því að ríkisstjórnin áformar frystingu framlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á næstu tveimur árum. Samkvæmt úttekt sem framkvæmd hefur verið á vegum Hag- og upplýsingasviðs Sambandsins hefur þessi frysting framlaganna þau áhrif að útgjaldajöfnunar-framlag og framlag vegna jöfnunar fasteignaskatta munu skerðast. Í úttektinni má sjá að framlög til Sveitarfélagsins Voga muni skerðast um rúmlega 27 m.kr. að óbreyttu, á þeim tveimur árum sem frystingin nær til.  Sé sú tala sett í samengi við rekstur sveitarsjóðs þá er áætlaður rekstrarafgangur á þessu ári áætlaður um 24 m.kr., þannig að glöggt má sjá að skerðing sem þessi hefur veruleg áhrif á rekstur bæjarsjóðs okkar. Bæjarráð samþykkti sérstaka bókun vegna þessara áforma á fundi sínum í vikunni, þar sem áformuðum skerðingunum er mótmælt.

Barnvænt sveitarfélag

Hafinn er undirbúningur að innleiðingu á verkefninu „Barnvænt samfélag“, sem er vottunarferli sem UNICEF heldur utan um. Hér er um áhugavert verkefni að ræða, sem er til þess fallið að skerpa línurnar gagnvart velferð barna í sveitarfélaginu okkar. Verkefnið mun taka nokkurn tíma í úrvinnslu, enda mikilvægt að huga að öllum þáttum þess. Umsjón með verkefninu er í höndum Matthíasar Freys Matthíassonar, íþrótta- og tómstundafulltrúa. Málið hefur jafnframt verið kynnt og rætt í Frístunda- og menningarnefnd.

Að lokum 

Nú í vikunni voru jafndægur á vori, þá eru dagur og nótt jafnlöng. Birtan sigrar myrkrið – í hönd fara bjartir tímar. Ég óska öllum góðrar helgar!

Getum við bætt efni síðunnar?