Föstudagspistill 24.9.2021

Dagbók

Verkefni um þessar mundir einkennast einkum af vinnu við gerð fjárhagsáætlunar. Á þriðjudag í síðustu viku kynntu fulltrúar HLH Ráðgjafar niðurstöðu vinnu fyrir Félagsmálaráðuneytið um farsæld barna, í tengslum við ný lög þar að lútandi. Kynninguna sátu allir bæjarstjórar sveitarfélaganna á Suðurnesjum, sem og forsvarsmenn félags- og fræðsluþjónustu sveitarfélaganna. Á miðvikudag var haldið málþing Velferðarstofu í Sandgerði með fulltrúum frá öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum, um sterkari framlínu. Fluttir voru áhugaverðir fyrirlestrar auk þess sem unnið var í vinnuhópum að stefnumörkun. Á föstudag tók bæjarstjóri þátt netfundinum „Skör ofar“ þar sem fjallað var um framtíðaráform varðandi brennslu úrgangs. Sú vika sem nú er senn á enda hefur einkennst af heimsóknum frambjóðenda til Alþingis, vegna kosninganna sem fram fara á morgun, laugardag. Frambjóðendur hafa kynnt stefnumál sín auk þess að fræðast um málefni sveitarfélagsins og hvað fólki er efst í huga. Samráðsteymi ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum hélt sinn reglubundna mánaðarlega fund s.l. þriðjudag, á þessum vettvangi er farið yfir þau mál er varða sameiginlega hagsmuni ríkisins og sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Bæjarstjóri mætti síðdegis á þriðjudag á almennan starfsmannafund í Stóru-Vogaskóla, þar sem m.a. var fjallað um og kynntar þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í rekstri sveitarfélagsins í hagræðingarskyni. Bæjarstjórar sveitarfélaganna á Suðurnesjum funduðu á reglubundnum samráðs- og upplýsingafundi með forstjóra ISAVIA s.l. miðvikudag, þar sem farið er m.a. yfir stöður og horfur á þessum fjölmennasta vinnustað landshlutans. Nemendur 4. bekkjar Stóru-Vogaskóla heimsóttu bæjarskrifstofuna í gær og fengu fræðslu um starfsemina á skrifstofunni.

 

Knattspyrnan

Það hefur vart farið fram hjá fólki að meistaraflokkur UMFÞ í knattspyrnu urðu deildarmeistarar í 2. deild Íslandsmóts karla. Með þessu móti hefur liðið tryggt sér keppnisrétt í næst efstu deild (Lengjudeildinni) að ári, sem er í senn sögulegur og stórkostlegur árangur. Liðið hefur sýnt það og sannað á nýafstaðinni leiktíð að það er til alls líklegt. Árangurinn undanfarinn ár er ævintýri líkastur, liðið hefur tekið örugg skref frá því að vera um langa hríð í 4 deild í átt að þeim stað sem þeir eru nú á. Lokahóf knattspyrnudeildar fór fram s.l. laugardag, þar sem gleðin ein réð ríkjum meðal leikmanna, þjálfara, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, starfsfólks og að ógleymdum stuðningsmönnum félagsins. Mikil gleði ríkti með þennan góða árangur, sem allir bæjarbúar geta glaðst yfir. Ungmennafélagið Þróttur fagnar 90 ára afmæli á næsta ári, það verður því sannarlega fagnaðarefna að meistaraflokkur karla skuli ná þeim árangri að spila í Lengjudeildinni á afmælisárinu.

 

Kosningar til Alþingis

Á morgun, laugardag, er kosið til Alþingis. Kjörstaður er að venju í Stóru-Vogaskóla. Allt er til reiðu, ég vil nota tækifærið og þakka formanni kjörstjórnar og hans fólki fyrir fumlausan og öruggan undirbúning. Framkvæmd kosninganna er í öruggum höndum hjá honum og hans fólki. Ég hvet alla til að nýta sér lýðræðislegan rétt sinn og greiða atkvæði.

 

Að lokum Veturinn er aðeins byrjaður að gera vart við sig, við fengum hvíta jörð um stund í vikunni. Haustið fer vonandi áfram vel með okkur. Góða helgi!

 

 

Getum við bætt efni síðunnar?