Föstudagspistill 24.1.2020

Gleðilegt ár!

Seint og um síðir lítur fyrsti föstudagspistill ársins ljós. Ég vil nota tækifærið þótt vel sé liðið á janúar og óska öllum áframhaldandi gleðilegs árs og þakka fyrir samstarf og samskipti á liðnu ári.

 

Heilsueflandi samfélag

Sveitarfélagið og Embætti Landlæknis undirrituðu á síðasta ári samstarfssamning um Heilsueflandi samfélag. Nú hefur Frístunda- og menningarnefnd samþykkt tillögu íþrótta- og tómstundafulltrúa sveitarfélagsins um dagskrá ársins, sem samanstendur af mánaðarlegum viðburðum ýmiss konar og tengjast verkefninu. Fyrsti viðburðurinn er á morgun, laugardaginn 25. janúar, en þá er skorað á alla íbúa að mæta í sund. Sundlaugin er opin kl. 10 – 16, íbúar sveitarfélagsins greiða ekki aðgangseyri í sundlaugina. Allir sem mæta geta skilað inn þátttökutilkynningu og með því móti safnað stigum. Vegleg verðlaun verða veitt í árslok til þeirra sem flestum stigum hafa safnað. Með þessu verkefni vonumst við til að virkja íbúa sveitarfélagsins til að stunda heilsusamlegt líferni og setja sér markmið fyrir árið. Viðburðirnir verða fjölbreyttir og þannig settir upp að hver sem er getur tekið þátt, óháð aldri, líkamsburðum eða atgervi.

 

Málefni vatnsveitu

Samkvæmt gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins skal nýtt vatnsból tekið í notkun á síðari hluta skipulagstímabilsins. Núverandi vatnsból er í Vogavík, nánar tiltekið innan athafnasvæðis Stofnfisks hf. Vatnsbólið er í eigu og rekið af HS Veitum hf., en sjálft dreifikerfið er í eigu vatnsveitu sveitarfélagsins. Á aðalskipulaginu er gert ráð fyrir nýju vatnsbóli sunnan Reykjanesbrautar. Nú hafa forsvarsmenn HS Veitna lagt fram tillögu þess efnis að í stað þess að virkja nýtt vatnsból verði þess í stað lögð ný lögn frá Innri-Njarðvík, yfir Vogastapa og að þeim stað þar sem dreifikerfið tengist við núverandi vatnsból. Bæjarráð tók erindið til umfjöllunar á fundi sínum um miðjan desember s.l., og samþykkti fyrir sitt leyti að þessi leið verði farin að uppfylltum skilyrðum. Í erindinu kom fram að stofnkostnaður við lögnina væri umtalsvert lægri en kostnaður við að virkja nýtt vatnsból. Málið er nú í vinnslu, og m.a. verið að afla nauðsynlegra leyfa m.a. hjá landeigendum.

 

Byggðakvóti

Sveitarfélagið sótti um og fékk úthlutað byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019 – 2020. Alls var 44 þorskígildislestum úthlutað, sem bætist við 73 lestir sem ónýttar voru frá úthlutun síðasta fiskveiðiárs. Skilyrði þess að fá úthlutað byggðakvótanum er að aflinn sé unninn í Vogum.

 

Tvöföldun Reykjanesbrautar

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í desember að senda inn umsögn um Samgönguáætlun, þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þess að tvöföldun Reykjanesbrautar frá Krísuvíkurafleggjara að Hvassahraun og frá Fitjum að Rósaselstorgi færi inn á fyrsta áfanga samgönguáætlunar. Fulltrúar allra sveitarfélaganna mættu á fund Umhverfis- og samgöngunefndar á dögunum og fylgdu umsögnum sínum eftir.

 

Að lokum

Bóndadagur er í dag, nú hefst Þorri með tilheyrandi kræsingum sem tilheyra árstímanum. Ég óska öllum bændum til hamingju með daginn, og öllum lesendum pistilsins óska ég góðrar helgar!

Getum við bætt efni síðunnar?