Stígur að Háabjalla
Skógræktarfélagið Skógféll sótti um og fékk styrk frá sveitarfélaginu, sem nota skyldi til að bæta aðgengi að skógræktarsvæðinu við Háabjalla. Framkvæmdum er nú lokið, og því ágætis aðgengi að svæðinu fyrir gangandi og hjólandi úr Vogum. Stígurinn liggur frá gamla Stapaveginum um undirgöng undir Reykjanesbrautina, að línuvegi sunnan við Reykjanesbraut og þaðan sem leið liggur að Háabjalla. Háibjalli er fyrirmyndar útivistarsvæði, þar sem er að finna hávöxnustu tré á Suðurnesjum, í skjólsælum og fallegum lundi. Skógfell á hrós skilið fyrir að koma upp þessari notalegu aðstöðu, sem allir bæjarbúar eiga aðgang að.
Framkvæmdafréttir
Framkvæmdir við lagningu vatns- og fráveitu á tjaldsvæði sveitarfélagsins eru nú langt komnar. Þá hefur rekstraraðili tjaldsvæðisins nú þegar komið fyrir 2 af 3 smáhýsum, sem leigð verða út til gistingar. Einnig verður nú komið fyrir nýrri og fullkominni hreinlætisaðstöðu fyrir gesti svæðisins, með salernum og sturtum. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið í byrjun júní og svæðið þá tilbúið fyrir gesti sumarsins. Byrjað er að undirbúa endurnýjun yfirborðs Stapavegar, og gert ráð fyrir að nýtt malbik verði lagt á götuna í byrjun júní. Í næstu viku verður síðan hafist handa við endurnýjun norðurhluta Kirkjugerðis, gera má ráð fyrir að það verk taki nokkrar vikur. Í byrjun júní verða endurbætur við fráveitu sveitarfélagsins boðnar út, vonir okkar standa til að unnt verði að hefjast handa við það verk sem fyrst.
Eldri borgarar í Færeyjum
Eins og undanfarin ár efndu þátttakendur í félagsstarfi eldri borgara sveitarfélagsins til vorferðar. Að þessu sinni var ákveðið að halda til Færeyja, en um langt skeið hefur verið rætt um það í gamni og alvöru að gaman væri að heimsækja nágranna okkar. Ferðin var farin um síðustu helgi, farið með flugi frá Keflavíkurflugvelli á föstudagsmorgun, og komið heim um hádegisbil á mánudag. Góð þátttaka var í ferðinni, eða rúmlega 40 manns. Hjálmar Árnason, fyrrum þingmaður og fráfarandi framkvæmdastjóri Keilis, var fararstjóri. Hjálmar þekkir vel til í Færeyjum, enda á hann ættir sínar þangað að rekja. Ferðin heppnaðist í alla staði mjög vel, og ríkti almenn ánægja meðal ferðalanga.
Frisbeegolf
Skipulagsnefnd hefur nú heimilað uppsetningu Frisbeegolfvallar, í og í nágrenni við Aragerði. Frisbeegolf nýtur síaukinna vinsælda um land allt, og margir sem nýta tækifærið til að spreyta sig á kasthæfni sinni um leið og stunduð er holl og góð útivera og hreyfing. Efnt var til grenndarkynningar áður en heimildin var veitt. Gera má ráð fyrir að uppsetning á vellinum hefjist fljótlega, og með því aukist enn fjölbreytileikinn til iðkunar hreyfingar og útiveru í sveitarfélaginu.
Að lokum
Pistlaritari brá sér í leyfi um miðjan maí, sem skýrir að pistlar hafa ekki komið út undanfarna föstudaga. Nú þegar sumarið er gengið í garð má reikna með að útgáfan verði stopulli en ella, og því ekki víst að pistlarnir berist ykkur nema endrum og sinnum. Heimasíða sveitarfélagsins er uppfærð reglulega með fréttum hverju sinni. Bestu kveðjur og góða helgi!