Föstudagspistill 22.11.2019

Innanlandsflug í Hvassahraun?

Það er kunnara en frá þurfi að segja að undanfarin misseri hafa málefni innanlandsflugs og í því sambandi tilvist innanlandsflugvallarins í Vatnsmýrinni í Reykjavík verið töluvert til umræðu. Rögnunefndin svokallaða skilaði á sínum tíma skýrslu þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Hvassahraun væri álitlegasti valkosturinn þegar kæmi að því að finna innanlandsfluginu annan stað en á núverandi flugvelli. Á síðasta ári fól samgönguráðherra starfshópi að útfæra hugmyndir um flugvallakosti á suðvesturhorni landsins. Starfshópurinn hefur nú lokið störum og verða niðurstöðurnar kynntar á næstu dögum. Samkvæmt þeim fréttum sem birst hafa um málið í fjölmiðlum er nú helst litið til þeirrar niðurstöðu að nýr flugvöllur verði lagður í Hvassahraun, og honum ætlað að sinna þörfum innanlandsflugs ásamt æfinga- og kennsluflugi. Jafnframt er gert ráð fyrir að flugvöllurinn verði varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Af þessu má einnig draga þá ályktun að framtíð og uppbygging millilandaflugs verði áfram á Keflavíkurflugvelli. Enn eru þó margir óvissuþættir í þessu máli. Í skýrslunni kemur fram að það taki um 20 ár að leggja og reisa flugvöll í Hvassahrauni eftir að ákvörðun er tekin. Áður en unnt er að taka ákvörðun þarf að framkvæma rannsóknir af ýmsum toga, ásamt því að ráðast í umhverfismat. Sá undirbúningur tekur án efa langan tíma, rætt er um 3 – 5 ár í því sambandi. Sveitarfélagið Vogar vinnur nú að endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins, þar sem mikilvægt er m.a. að taka tillit til ýmissa ytri þátta er kunna að hafa áhrif á skipulagsmál og þróun þeirra í sveitarfélaginu. Skýrsla starfshópsins mun því án efa verða mikilvægt innlegg í þá vinnu sem framundan er vegna endurskoðunar aðalskipulags sveitarfélagsins.

 Fjárhagsáætlun tilbúin

Næsti reglubundni fundur bæjarstjórnar verður haldinn miðvikudaginn 27. nóvember n.k., kl. 18:00. Aðalverkefni þess fundar verður að taka til síðari umræðu tillögu að fjárhagsáætlun næsta árs, sem nú er að taka á sig endanlega mynd. Bæjarráð hefur fjallað um tillöguna milli umræðna, og lauk yfirferð sinni á fundi sínum nú í vikunni. Stefnt er að því að ljúka afgreiðslu áætlunarinnar á bæjarstjórnarfundinum á miðvikudag, og verður hún þá betur kynnt í framhaldinu.

 

Fjölmennur kynningarfundur BS

Hátt í 30 manns sóttu kynningarfund Brunavarna Suðurnesja, sem haldinn var nú í vikunni. Slökkviliðsstjóri kynnti þar starfsemina, auk þess sem hann kynnti sérstaklega átaksverkefni það sem snýr að því að fá áhugasama íbúa Sveitarfélagsins Voga til að gerast liðsmenn í varaliði BS. Verður spennandi að fylgjast með.

 

Atlagerðistangaviti - Vitaganga

Laugardaginn 23. nóvember  efnir Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar til fræðslugöngu þar sem þess verður minnst að Atlagerðistangaviti á Vatnsleysuströnd var tekinn í notkun fyrir 100 árum. Gengið verður frá samkomuhúsinu Kirkjuhvoli sem leið liggur niður að vitanum. Unnt verður að fara inn í vitann og litast þar um. Leiðsögumaður í göngunni verður Haukur Aðalsteinsson. Gangan hefst kl. 11, þátttakendur eru hvattir til að klæða sig eftir veðri og vera í góðum skóm.

 

Að lokum  óska ég öllum góðrar helgar!

Getum við bætt efni síðunnar?