Hægur bati
Rekstur sveitarfélagsins hefur verið erfiður og þungur undanfarin misseri. Umtalsvert tap varð á síðasta ári, og áætlun þessa árs gerir einnig ráð fyrir talsverðum rekstrarhalla. Margvíslegar ástæður liggja hér að baki, sem m.a. má rekja til afleiðinga heimsfaraldrursins. Þrátt fyrir að tekjur hafi náð að jafna sig að stærstum hluta hefur hins vegar vandinn legið á útgjaldahliðinni. Í upphafi árs var því ákveðið að ráðast í fjárhagsúttekt á rekstri sveitarfélagsins, í samstarfi við ráðgjafafyrirtæki. Niðurstöður og tillögur ráðgjafa lágu fyrir um mitt ár. Í kjölfarið var ráðist í ýmsar aðgerðir sem voru til þess fallnar að ná fram lækkun kostnaðar og aukinni hagræðingu í rekstri. Nú liggur fyrir uppgjör fyrstu níu mánaða ársins, sem lagt verður fram á fundi bæjarráðs í næstu viku. Í uppgjörinu má greina hægan bata og viðsnúning í rétta átt. Góðu fréttirnar eru að nú þegar má greina lækkun kostnaðar, og ýmislegt sem bendir til þess að rekstrarafkoman verði e.t.v. betri en upphafleg áætlun ársins gerði ráð fyrir. Mikið hefur reynt á starfsemi og starfsfólk sveitarfélagsins við þessar breytingar. Góðum árangri er fyrst og fremst að þakka starfsfólki sveitarfélagsins sem hafa sýnt aðgerðunum skilning sem og lagt sitt að mörkum til að árangur náist. Með samstilltu átaki mun okkur takast að koma rekstrinum í viðunandi horf og um leið efla starfsemina til framtíðar.
Valkostagreining - næstu skref
Í síðasta pistli var sagt frá vel heppnuðum íbúafundi þar sem kynntir voru hugsanlegir valkostir komi til þess að ákveðið verði að fara í sameiningarviðræður við annað eða önnur sveitarfélög. Næstu skref er að efna til þriðju og síðustu vinnustofunnar, þar sem ráðgjafi verkefnisins, kjörnir fulltrúar, formenn nefnda og lykilstjórnendur koma saman og fara m.a. yfir þær ábendingar og áherslur sem fram komu á íbúafundinum. Ánægjulegt er hversu góð viðbrögðin hafa verið vegna þessa verkefnis. Sitt sýnist auðvitað hverjum um ágæti þess að skoða sameiningu og þá við hverja. Hver svo sem niðurstaðan úr þessari vinnu verður er ljóst að nýta má hana vel í starfseminni almennt, sem er af hinu góða. Það lýsir styrk sveitarfélgsins að taka upplýsta ákvörðun sem byggir á góðum undirbúningi og greiningu, óháð því hver niðurstaðan verður.
Kótilettukvöld
Björgunarsveitin Skyggnir og Ungmennafélagið Afturelding efna í sameiningu til kvöldskemmtunar í íþróttamiðstöðinni laugardaginn 6. nóvember n.k. Þetta er í fyrsta skipti sem íþróttasalurinn verður nýttur til fjölmennrar samkomu, og verður áhugavert að sjá hvernig til tekst. Gera má ráð fyrir miklu fjölmenni, en salurinn getur rúmað allt að 400 manns. Árshátíðarnefnd sveitarfélagsins ákvað á fundi sínum í vikunni að í stað þess að halda hefðbundna árshátíð starfsfólks (sem ítrekað hefur verið frestað vegna faraldursins) að kaupa miða á kótilettukvöldið fyrir starfsfólk sveitarfélagsins. Með þessu móti gefst langþráð og kærkomið tækifæri fyrir starfsfólkið að koma saman og gera sér glaðan dag, auk þess sem við styrkjum gott málefni. Allur ágóði sem verður af kótilettukvöldinu rennur til starfsemi þessara tveggja öflugu og samfélagslega þýðingarmiklu félagasamtaka, sem hafa snúið saman bökum í þessu frábæra verkefni.
Dagbók
Mánudagur: Stöðufundur almannavarna; fundur með löggiltum endurskoðanda sveitarfélagsins um 9 mánaða uppgjör; fundur í Svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja.
Þriðjudagur: Reglubundinn fundur Samráðsteymis Suðurnesja (bæjarstjórar og fulltrúar ráðuneyta
Miðvikudagur: Samráðs- og upplýsingafundur með forsvarsmönnum Félags eldri borgara í Vogum
Fimmtudagur: Fundur með verkefnastjóra Menntanets Suðurnesja
Laugardagur: Gestur á flugslysaæfingu á Keflavíkurflugvelli
Að lokum
Fyrsti vetrardagur er á morgun, laugardag. Samkvæmt hinu forna norræna tímatali lýkur nú haustmánuði og við tekur gormánuður, sem er fyrsti mánuður vetrar. Í dag er jafnframt síðasti dagur haustleyfis grunnskólans. Vonandi hafa nemendur og starfsfólk notið leyfisins vel og koma endurnærð til starfa að nýju. Ég óska öllum góðrar helgar!