Föstudagspistill 21.5.2021

Eignarnámsbeiðni hafnað

Í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að nýtt vatnsból sveitarfélagsins yrði tekið í notkun á síðari hluta skipulagstímabilsins. Skipulagstímabilið er 2008 – 2028. Þegar árið 2017 var hafinn undirbúningur að málinu, en í aðalskipulaginu var þegar gert ráð fyrir hinu nýja vatnsbóli sunnan Reykjanesbrautar. Svæðið sem um ræðir tilheyrir Heiðarlandi Vogajarða, en það land er í sameign sveitarfélagsins og nokkurra annarra aðila. Af hálfu meðeigenda sveitarfélagsins að landinu komu fram ábendingar um staðsetningu vatnsbólsins, sem leiddu til þess að ákveðið var að breyta staðsetningunni í samræmi við þær ábendingar. Ráðist var í breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins í samræmi við þetta. Þessu næst tóku við samningaviðræður við meðeigendur sveitarfélagsins að landinu, þar sem sveitarfélagið setti fram beiðni um kaup þess á landsvæðinu sem þyrfti fyrir hið nýja vatnsból. Meðeigendur sveitarfélagsins hafa ekki viljað ljá máls á því að selja landið, heldur vilja útfæra málið með öðrum hætti. Ekki náðist samkomulag um það. Sveitarfélagið taldi því samningaviðræður fullreyndar, og óskaði eftir eignarnámsheimild samkvæmt ákvæðum laga þar að lútandi. Beiðnin var send Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu þann 20. september 2020. Ráðuneytið birti úrskurð sinn loks þann 17. maí 2021, þar sem beiðni sveitarfélagsins var hafnað. Málefni nýs vatnsbóls er nú í uppnámi, þar sem ekki fæst heimild ráðuneytisins til að umrædd land undir vatnsból verði tekið eignarnámi. Það verkefni bíður nú sveitarstjórnar að leita leiða til að finna lausn á þessu brýna og mikilvæga máli. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að íbúum sveitarfélagsins sé tryggður aðgangur að heilnæmu neysluvatni. Vonandi takast samningar um þetta þýðingarmikla, samfélagslega verkefni sem fyrst.

 

Af vettvangi bæjarstjórnar

Bæjarstjórn hélt aukafund þann 11. maí s.l., þar sem eina verkefni fundarins var umfjöllun um ársreikning sveitarfélagsins árið 2020. Óhætt er að segja að rekstur sveitarfélagsins var erfiður á síðast ári. Gjöld umfram tekjur voru rúmar 170 m.kr., sem er afar slæm útkoma. Margt skýrir erfiða afkomu síðasta árs. Laun og launatengd gjöld fóru talsvert fram úr áætlun á árinu, og eru nú orðin um 65% af útgjöldum sveitarfélagsins. Æskilegt er að ná þessu hlutfalli niður í a.m.k. 55%, og er nú unnið hörðum höndum í að leita leiða til að hagræða þannig í rekstrinum að svo geti orðið. Tekjuhliðin fór betur en á horfðist á árinu, en þó er vert að geta þess að fjárhæð tekjujöfnunarframlags dróst verulega saman á milli ára, sem að mestu má rekja til innbyrðis tilfærslu milli sveitarfélaga. Síðari umræða í bæjarstjórn um ársreikninginn verður miðvikudaginn 26. maí n.k.

 

Framkvæmdafréttir

Framkvæmdir við fráveitu í Hafnargötu ganga vel og er því sem næst lokið. Framkvæmdir við göngu- og hjólastíg eru á áætlun og ganga vel. Styttist í að hann verði malbikaður.

 

Hoppum á ærslabelg!

Í dag, föstudag, er unnið að uppsetningu og lokafrágangi á uppsetningu ærslabelgsins við íþróttamiðstöðina. Ég vil hvetja alla sem vilja nýta sér þetta skemmtilega leiktæki að fara varlega og ganga vel um. Stöndum öll saman um að ærslabelgurinn verði okkur öllum til gleði og ánægju.

 

Að lokum óska ég öllum góðrar hvítasunnuhelgar

 

Getum við bætt efni síðunnar?