Á tímum óvissu
Við lifum sannarlega á óvissutímum um þessar mundir. Í upphafi árs þegar fréttir tóku að berast frá Kína um veirusýkingu hefur sjálfsagt enginn gert sér í hugarlund að einungis tveimur mánuðum síðar hefði hún dreift sér nánast um alla heimsbyggðina með öllum þeim afleiðingum sem við verðum nú vitni að. Sjálfur var ég fyrir löngu búinn að ráðgera tveggja vikna orlofsferð til Spánar sem ég fór í þann 4. mars, ekki einu sinni þá gat maður ímyndað sér að 10 dögum síðar væri komið á útgöngubann þar í landi. Ég gat sem betur fer komist heim, og sit nú í 14 daga sóttkví. Hér á landi erum við þó heppin að einungis ríkir samkomubann, en ekki útgöngubann. Á Spáni mátti einungis fara út til að fara í matvörubúð og apótek, og þá aðeins einn í einu. Ekki mátti fara út í gönguferðir eða neitt slíkt, heldur voru fyrirmælin skýr: Halda sig heima.
Þegar þetta er skrifað er nýbúið að uppfæra tölur um fjölda smitaðra, en nú eru alls 409 staðfest smit í landinu. Fyrsta smitið var staðfest 27. febrúar s.l. Fjöldi smita var fyrstu tvær vikurnar tiltölulega hóflegur, en nú síðustu dagana sjáum við veldisvöxt í fjölguninni.
Það er full ástæða til að taka ástandið alvarlega. Hér á landi erum við svo heppin að eiga fagfólk í fremstu röð sem stendur í framvarðarsveitinni. Stjórnvöld, bæði ríkisvaldið og sveitarstjórnarstigið vinna nú hörðum höndum að því að grípa til ráðstafana af ýmsu tagi, bæði gagnvart atvinnulífinu sem og heimilinum og einstaklingunum. Með samstilltu átaki og samheldni mun okkur takast að komast í gegnum þessar áskoranir allar, en við verðum að vera undirbúin undir að það geti tekið talsverðan tíma og það mun án efa reyna mikið á allt og alla. Lykilorðið hér er þess vegna: Samstaða! Munum að þetta mun ganga yfir og við komum út úr þessu sem sterkara samfélag.
Ráðstafanir sveitarfélagsins
Sveitarfélagið Vogar hefur nú gefið út aðgerðaráætlun um órofna starfsemi og þjónustu, sem og viðbragðsáætlun sveitarfélagsins. Þessar áætlanir eru báðar aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins, ásamt margvíslegum öðrum nytsamlegum upplýsingum sem öllum hefur verið safnað saman á einn stað á heimasíðunni. Þá hefur verið ákveðið að þeir foreldrar sem kjósa að nýta ekki leikskóladvöl fyrir börn sín meðan á samkomubann varir fá leikskólagjöldin felld niður. Þá er jafnframt ákveðið að einungis er greitt fyrir þá þjónustu leikskólans sem nýtt er, þ.e. ekki er innheimt gjald fyrir leikskóladvöl nema hún sé nýtt.
Bakvarðarsveit velferðarþjónustu
Ég vil vekja athygli á að Félags- og barnamálaráðherra ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga vinna nú í sameiningu að því að koma á fót bakvarðarsveit í velferðarþjónustu. Þeir sem tök hafa á eru hvattir að skrá sig á listann og auðvelda þannig stjórnvöldum að veita þeim þjónustu sem minnst mega sín í samfélaginu. Óskað er eftir fólki sem getur starfað í þjónustu við fatlað fólk, aldraða, heimilislausa, börn með sértækar stuðningsþarfir, barnavernd og fjárhagsaðstoð. Reynsla af störfum í velferðarþjónustu er kostur en ekki skilyrði. Hæfniskröfur taka mið af viðkomandi starfi.
Að lokum
Munum að vera bjartsýn, og horfa fram á veginn. Forðumst óábyrgt tal og órökstuddar fullyrðingar. Stöndum saman.
Ljóðlínur Einars Benediktssonar er gott veganesti:
„Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Ég óska öllum góðrar helgar og sól í hjarta.