Sóttvarnir og faraldur Eftir að gripið var til hertra takmarkana í samfélaginu fyrir nokkru, í kjölfar þess að þriðja bylgja faraldursins reis sem hæst sjáum við nú loks árangur af þeim aðgerðum. Í þessari viku var eilítið slakað á kröfunum, tilslakanir ná einkum til barna og ungmenna. Það er mikilvægasti hópurinn í samfélaginu sem vert er að hlúa að á þessum erfiðu tímum. Það voru því gleðitíðindi að grímuskyldu var aflétt af nemendum í 5. – 7. bekk, sem og að opnað var að nýju fyrir íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga. Allt þarf þetta þó að skipuleggja að teknu tilliti til þeirra takmarkana sem enn eru í gildi í samfélaginu, til að tryggja sem best sóttvarnir gagnvart öllum. Skólinn greip til þess ráðs að nýta þessa viku til að skipuleggja fyrirkomulagið, sem tekur gildi frá og með næstu viku. Leikskólinn vinnur einnig samkvæmt þeim reglum sem í gildi eru, og aðlagar sig sem best má vera að þeim reglum sem í gildi eru og taka mið af aðstæðum. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllu starfsfólki sveitarfélagsins fyrir góða frammistöðu við erfiðar og krefjandi aðstöðu. Það er sannarlega dýrmætt að geta skipulagt starf á þann hátt að vel gangi og röskun verði sem minnst. Ég bendi loks á fundargerðir aðgerðarstjórnar sveitarfélagsins, sem eru aðgengilegar á heimasíðunni undir gula borðanum. Af vettvangi bæjarstjórnar Bæjarstjórn fundar í næstu viku. Á þeim fundi verður megin viðfangsefnið umfjöllun um fjárhagsáætlun 2021 – 2024, sem lögð verður fram til fyrri umræðu. Erfiðlega hefur gengið að koma áætluninni heim og saman, einkum þar sem enn eru margir óvissuþættir um horfurnar á næsta ári. Það er ljóst að reksturinn bæði í ár og á næsta ári verður þungur, og því mikilvægt að huga vel að honum. Sveitarfélagið hefur þegar orðið fyrir miklu tekjufalli, bæði vegna skerðinga framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem og vegna minnkandi útsvarstekna. Atvinnuleysi á svæðinu heldur áfram að aukast, sem er bein ávísun á enn frekari samdrátt útsvars. Það er því mikilvægt að þær ráðstafanir sem samið hefur verið um á vettvangi ríkis og sveitarfélaga um stuðning ríkisins til sveitarstjórnarstigsins skili sér til þeirra sveitarfélaga sem sannarlega verða illa fyrir barðinu á afleiðingum faraldursins. Alþjóðlegur dagur barnsins Í dag, föstudaginn 20. nóvember, er alþjóðlegur dagur barnsins haldinn hátíðlegur. Dagurinn er jafnframt afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Sveitarfélagið er aðili að verkefninu „Barnvænt samfélag“, sem hefur það megin markmið að innleiða ákvæði barnasáttmálans í starfsemi sveitarfélagsins. Með því tryggjum við að réttindi barna séu virt. Það er því viðeigandi að vera meðvitaður um daginn og leyfa sér að gleðjast sem mikilvægur þátttakandi í baráttunni. Í þessu sambandi má geta þess að nú hefur verið opnað fyrir umsóknir um sérstaka styrki til íþrótta- og tómstundastarfs barna og unglinga, sem beint er að tekjulágum fjölskyldum. Nánari upplýsingar á heimasíðu sveitarfélagsins. Til hamingju með daginn! Að lokum Það líður því miður nokkuð langt á milla pistlanna hjá mér þessar vikurnar. Ég sendi ykkur öllum góðar kveðjur og ítreka þakklæti mitt til ykkar fyrir vel unnin störf við erfiðar aðstæður. Senn líður að aðventu – við skulum njóta hennar. Ég óska öllum góðrar helgar!