Föstudagspistill 2. júlí 2021

Vinnuskólinn

Metþátttaka er í Vinnuskólanum þetta árið. Ungmenni úr 8., 9., og 10. bekk grunnskólans, auk ungmenna á 1. ári í framhaldsskóla, fá störf í vinnuskólanum. Í vinnuskólanum vinna ungmennin fyrst og fremst að umhverfistengdum verkefnum, m.a. slátt og hirðingu opinna svæða, umhirðu og fegrun og annað sem snýr að því að gera umhverfið fallegt. Þau njóta leðsagnar nokkurra flokkstjóra, sem leitast við að efla ungmennin á alla lund, kenna þeim góð vinnubrögð og til verka. Yfirflokkstjóri vinnuskólans er Ellen Ösp Ísaksdóttir, sem stýrir öllu starfinu með miklum myndarskap. Við þökkum ungmennunum öllum fyrir þeirra þýðingamiklu störf og þeirra framlag til að fegra umhverfið.

Verslun og þjónusta

Enn sem komið er hefur ekki tekist að finna rekstraraðila sem hefur áhuga á að taka að sér rekstur í verslunarhúsnæðinu í Iðndal 2, þar sem Verslunin Vogar var áður til húsa. Sem kunnugt er keypti sveitarfélagið húsnæðið fyrr á þessu ári, ef það mætti verða til þess að auðvelda áhugasömum aðilum rekstur verslunar. Viðræður hafa átt sér stað við nokkra aðila, en enn sem komið er hefur það ekki borið árangur. Áfram verður unnið að þessum málum. 

Vonir standa til að Gamla Pósthúsið opni að nýju fyrr en síðar, en það hefur verið lokað frá því í upphafi veirufaraldursins. Veitingastaðurinn hefur verið til sölu, nú hillir undir að nýjir eigendur taki við og opni staðinn að nýju. 

Göngu- og hjólreiðastígur

 Mikil ánægja ríkir með nýja göngu- og hjólreiðastíginn meðfram Vatnsleysustrandarvegi, milli Voga og Brunnastaðahverfis. Stígurinn var vígður formlega laugardaginn 26. júní s.l., þar sem ferskir vindar blésu í annars björtu og fallegu veðri. Hrafnhildur Bryndís Rafnsdóttir í Sunnuhlíð klippti á borðan, en hún hefur einmitt lengi hvatt stjórnendur sveitarfélagsins til að láta hanna og framkvæma mannvirkið. Stígurinn bætir svo um munar öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem eiga leið milli Voga og Brunnastaðahverfis. 

Sveitarfélagið hefur mikinn áhuga á að halda áfram framkvæmdum sem þessum. Næsta verkefni á dagskrá er að hanna og leggja stíg sem tengir Voga og Innri-Njarðvík, um Vogastapa. Vegagerðin heitir stuðningi við það verkefni, enda sú framkvæmd til þess fallin að bæta umferðaröryggi gangandi og hjólandi. Þegar þessi tenging verður komin á, er komin samfelld tenging fyrir gangandi og hjólandi vegfarerndur frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar að Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd.

Áformin þar á eftir verða að halda áfram lagningu stígs inn Vatnsleysuströnd, í átt að Kúagerði og Hvassahrauni. Það tekur við tenging frá sveitarfélagamörkum Voga og Hafnarfjarðar að álverinu í Straumsvík, en það er vel tengt við allt stígakerfi höfuðborgarsvæðisins.

 

Miðsvæðið

Deiliskipulagi Miðsvæðis var nýlega breytt, sem hefur í för með sér að nú verða til nýjar lóðir fyrir samtals 15 íbúðir. Um er að ræða tvær lóðir fyrir 2ja hæða fjölbýlishús, í öðru húsinu er gert ráð fyrir 6 íbúðum og 8 íbúðum í hinu. Að auki bætist við ein einbýslishúsalóð. Um er að ræða sunnan við Skyggnisholt, sem áður var skilgreint sem þjónustusvæði. Skipulagsuppdráttinn má sjá  hér og auglýsingu um lóðirnar má sjá hér

Framkvæmdir standa yfir við gerð gangstíga á miðbæjarsvæðinu. Byrjað er að steypa kanta og forma stígana. Tekur smátt og smátt á sig mynd, og verður til mikilla bóta fyrir hverfið. 

 

Getum við bætt efni síðunnar?