Hægir á jarðhræringum
Undanfarna sólarhringa hefur dregið úr skjálftahrinunni í nágrenni Fagradalsfjalls. Þau tíðindi urðu reyndar fyrr í vikunni að virknin tók að færast að nýju til norðurs, eftir að hafa færst til suðurs dagana þar á undan. Það svæði sem þá var talinn verka líklegasti uppkomustaður kviku var í norðanverðu Fagradalsfjalli, í dalverpi sunnan við Litla Hrút. Sá staður var talinn vera heppilegur ef til eldgoss kæmi á annað borð, hraunflæðislíkön sýndu að hraunið sem upp kæmi yrði takmarkað við tiltölulega lítið svæði. Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra heldur daglega stöðufundi, þar sem sérfræðingar Veðurstofunnar fara vandlega yfir þróun mála og stöðu. Á fundi morgunsins var bent á að þrátt fyrir nú hefði verulega hægst á skjálftavirkni væri mikilvægt að fylgjast áfram vel með þróuninni. Í því sambandi var rifjað upp að þegar Kröfueldar geisuðu á 8. og 9. áratugnum hefði einmitt verið mikil skjálftavirkni í talsverðan tíma, sem síðar hjaðnaði. Upp úr þurru svo að segja hófst síðan eldgos, án nokkurs óróleika að heita mátti. Það er því ekki á vísan á róa í þessum málum, enda um flókin fræði að ræða þegar jarðvísindi eru annars vegar. Mikilvægast er sem fyrr að muna að engin bráð hætta steðjar að samfélaginu okkar, jafnvel þótt þessi óvissa sé til staðar. Komi til slíkrar atburðarrásar er mikilvægt að fylgja leiðbeiningum almannavarna og viðbragðsaðila, sem og að sýna ró og yfirvegun. Þá farnast okkur öllum vel.
Rýmingaráætlun
Eins og áður hefur verið greint frá eru nú rýmingarkort fyrir sveitarfélagið aðgengileg á heimasíðunni. Áætlunin í heild sinni verður innan skamms aðgengileg sem drög á heimasíðu almannavarna, þar sem unnt er að koma með athugasemdir og ábendingar ef svo ber undir.
Gengið í öll hús með borða
Nú um helgina munu félagar úr Björgunarsveitinni Skyggni ganga heimsækja öll heimili í sveitarfélaginu. Þeir munu afhenda sérstaka borða (hvíta og rauða) sem skulu notaðir ef svo ólíklega vill til að koma þurfi til rýmingar. Þegar rýmingaráætlun er virkjuð auðveldar merking allt starf viðbragðsaðila. Íbúar geta því merkt heimili sitt með rauðum borða þegar búið er að yfirgefa það, en með hvítum borða ef aðstoðar er þörf. Þetta er samstarfsverkefni sveitarfélagsins og björgunarsveitarinnar, við kunnum þeim Skyggnismönnum miklar þakkir fyrir þeirra framlag og hvetjum alla til að taka vel á móti þeim um helgina.
Faraldurinn
Umfjöllun um veirufaraldurinn og áhrif hans hafa eðli málsins fallið talsvert í skuggann undanfarið, bæði vegna þeirrar áherslu sem er á yfirvofandi náttúruvá sem og þar sem vel hefur gengið að ná honum niður. Öll starfsemi sveitarfélagsins er nú komin í eðlilegt horf, þ.e. allar stofnanir starfa eðlilega og með hefðbundnu sniði. Vissulega eru enn takmarkanir í gildi, bæði hvað varðar fjöldatakmarkanir og fjarlægðarmörk. Áfram er mikilvægt að leggja áherslu á persónulegar sóttvarnir. Bólusetningar standa yfir, nú styttist í að lokið verði við að bólusetja 70 ára og eldri hér á okkar svæði.
Að lokum
Það er einlæg von mín að nú þegar vel hefur hægst um í skjálftum að helgin framundan verði öllum róleg og góð, og að þið njótið hennar öll sem best. Ég óska öllum góðrar helgar og minni á að í næstu viku eru jafndægur á vori.