Föstudagspistill 18.9.2020

Lokið við lagningu ljósleiðara

Nú í vikunni voru síðustu húsin í dreifbýlinu tengd við ljósleiðarann. Þar með er lokið verkefninu sem ráðist var í og hófst árið 2019, sem fólst í því að tengja heimili og fyrirtæki í dreifbýlinu við ljósleiðarann. Verkefnið var styrkt af Fjarskiptasjóði, undir formerkjum verkefnisins „Ísland ljóstengt 2020“. Nú eru loks öll heimili á Vatnsleysuströnd og í Hvassahrauni (sem þess óska) komin með tengingu við háhraðatengingu af bestu gerð, sem gerir þeim kleift að njóta fjarskipta og gagnaflutninga í góðum gæðum og með öflugri flutningsgetu. Ljósleiðari er þegar kominn að þéttbýlinu í Vogum, svo nú er bara að vona að fyrirtæki á þessum markaði sjái sér hag í að ráðast í það mikilvæga verkefni að tengja húsin hér í þéttbýlinu við ljósleiðarann. Vonandi verður það fyrr en síðar.

 

Íbúafundur

Fimmtudaginn 17. september var haldinn íbúafundur í Stapa fyrir alla íbúa Suðurnesja. Fundinum var jafnframt streymt á nokkrum vefsvæðum. Hátt á þriðja hundrað manns sátu fundinn þegar mest var, ýmist á staðnum eða með því að fylgjast með útsendingunni. Flutt voru fjögur framsöguerindi, af hálfu SSS, Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi, verkalýðshreyfingarinnar og Vinnumála-stofnun. Á fundinum var jafnframt undirrituð viljayfirlýsing sveitarfélaganna, Vinnumálastofnunar og Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi um sköpun starfa á Suðurnesjum. Samkvæmt yfirlýsingunni mun Vinnumálastofnun í samstarfi við sveitarfélög og fyrirtæki á Suðurnesjum vinna að því að skapa störf, með tímabundnum ráðningarstyrkjum, í sex til tólf mánuði fyrir atvinnuleitendur á svæðinu. Þetta er jákvætt og mikilvægt skref, sem vonandi dregur úr því mikla atvinnuleysi sem nú ríkir hér í landshlutanum.

 

Framkvæmdafréttir

Nú hafa þau ánægjulegu tíðindi orðið að allir landeigendur hafa heimilað lagningu göngu- og hjólreiðastígs milli Voga og Brunnastaðahverfis, meðfram gamla Vatnsleysustrandarveginum. Þetta eru að sjálfsögðu gleðifréttir, og fagnaðarefni að þetta jákvæða og samfélagslega mikilvæga verkefni verði að veruleika. Nú þegar er hafinn undirbúningur við verkefnið, sem gert er ráð fyrir að verði boðið út þegar í næstu viku.

Framkvæmdir við lagnir og jarðvegsskipti á Grænuborgarsvæði eru í fullum gangi. Þær framkvæmdir eru á vegum landeiganda, en ekki sveitarfélagsins. Það er ánægjulegt að fylgjast með framvindu verksins. Forsvarsmenn verkefnisins eru bjartsýnir á framhaldið, en framundan eru samningar þeirra við byggingaverktaka sem vonandi geta hafist handa við byggingu fyrstu húsanna á svæðinu á næstu mánuðum.

 

Félagsmiðstöðin Boran

Starfsemi í félagsmiðstöð unglinga er nú að komast á fullan skrið. Nýráðinn íþrótta- og tómstundafulltrúi sveitarfélagsins hefur nú auglýst eftir samstarfsfólki til að sinna verkefnum með frábæru ungmennunum okkar sem stunda starfið í félagsmiðstöðinni. Ég hvet alla áhugasama að gefa þessu gaum, og skoða hvort ekki sé rétt að sækja um þessi skemmtilegu og gefandi störf. Ekki er að efa að margt áhugavert verður á dagskránni í vetur, þar sem öll ungmenni ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

 

Að lokum vil ég hvetja alla til að fara varlega og viðhafa varkárni gagnvart veirufaraldrinum. Með því að fylgja leiðbeiningum og viðhafa aðgát er unnt að verjast smiti – munum það. Bestu kveðjur með ósk um góða helgi.

 

Getum við bætt efni síðunnar?