Föstudagspistill 18. október 2019

Framkvæmdir 2019

Í ár hefur verið ráðist í ýmsar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins. Sumum þeirra er þegar lokið, sumar enn í gangi og einhverjum þeirra frestað. Fyrst skal nefna framkvæmdum við nýtt tjaldsvæði sveitarfélagsins, sem lauk um mitt sumar. Ráðist var í lagningu vatns- og fráveitu inn á svæðið, gerð var jarðvegsmön og stór hluti grassvæðisins endurnýjað. Rekstraraðili svæðisins réðist í kaup á þremur smáhýsum, með tilheyrandi gistiaðstöðu. Nýju aðstöðuhúsi með sturtum og salernum var komið fyrir, auk þess sem rekstraraðili tók nýtt þjónustuhús í notkun. Góð aðsókn hefur verið í sumar, ráðgert er að hafa tjaldsvæðið opið allan ársins hring. Norðurhluti Kirkjugerðis var endurnýjaður, þ.e. skipt út lögnum, lagt nýtt malbik og gangstétt. Þá var yfirborð Stapavegar endurnýjað að hluta. Bygging nýrrar þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins miðar vel og er á áætlun. Verklok verða í lok nóvember. Auk þess að hýsa starfsemi Umhverfisdeildar sveitarfélagsins verður bílaþvottastæði fyrir almenning við húsið og dælubíll frá Brunavörnum Suðurnesja staðsettur þar. Nú á haustmánuðum er unnið að endurnýjun fráveitu, þ.e. smíði dælubrunns og lagningu þrýstilagnar milli Akurgerðis og Hafnargötu. Verkið hefur tafist vegna fornleifa sem komið hafa í ljós, en er nú komið aftur í vinnslu eftir að sérfræðingar Minjastofnunar hafa skráð og yfirfarið fornleifarnar. Lagning ljósleiðara í dreifbýli stendur nú yfir, búið er að tengja Hvassahraun og Vatnsleysu. Á næstu vikum verða heimili og fyrirtæki á Vatnsleysuströnd tengd. Ákveðið var að fresta lagningu göngu- og hjólreiðastígs milli Voga og Brunnastaða-hverfis fram á næsta ár. Loks er þess að geta að talsvert er byggt af nýju íbúðahúsnæði á miðbæjarsvæðinu, og er ánægjulegt að sjá ný hús rísa, jafnt fjölbýlis-, par- og einbýlishús.

Íbúafjöldinn nú 1.300

Þau merku tímamót urðu nú í upphafi vikunnar að íbúafjöldi sveitarfélagsins náði tölunni 1.300. Sé litið til þróunar íbúafjöldans í sveitarfélaginu frá árinu 2006 (þegar Vatnsleysustrandarhreppur varð Sveitarfélagið Vogar) má sjá að íbúafjöldinn hefur sveiflast nokkuð milli ára. Fram til þessa náði íbúafjöldinn hámarki árið 2008, þegar fjöldinn var 1.231. Árið 2015 fór talan niður í 1.102. Síðan þá hefur leiðin legið upp á við, en sem fyrr segir sáum við í fyrsta skipti nú í vikunni töluna 1.300. Þessi þróun er í samræmi við mikla fjölgun íbúa hér á Suðurnesjunum. Gera má ráð fyrir áframhaldandi þróun í sömu átt, enda margar nýjar íbúðir nú í byggingu í sveitarfélaginu.  

 

Sameining Kölku og Sorpu

Sveitarfélögin á Suðurnesjum skipuðu starfshóp fyrr í sumar, sem fjallaði um hugmyndir þær sem fram hafa komið um að sameina Kölku og Sorpu. Niðurstaða starfshópsins liggur nú fyrir og hefur verið send öllum sveitarfélögunum til umfjöllunar. Í niðurstöðunni er lagt til að fallið verði frá hugmyndum um sameiningu, en að í staðinn verði farið af krafti í samtal við sorpsamlögin á Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi um sameiginleg markmið og aðgerðir við meðhöndlun og förgun úrgangs. Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga hefur þegar samþykkt þessar tillögur fyrir sitt leyti.

 

Að lokum 

Langt er um liðið frá síðasta föstudags-pistli. „Betra seint en aldrei“ segir máltækið, hver veit nema áframhald verði næstu vikurnar á pistlaskrifum. Ég óska öllum góðrar helgar, og góðra stunda.

 

Getum við bætt efni síðunnar?