Vogar – fallegi bærinn okkar
Við þekkjum mörg þetta heiti, sem prýðir vinsælan Facebook-hóp hér í bænum. Þar er vettvangur til samskipta, upplýsingamiðlunar og skoðanaskipta. Nafn hópsins er mér hugleikið þessa dagana, nú þegar er hásumar og gróður allur í fullum sumarskrúða. Nemendur vinnuskólans og starfsmenn Umhverfisdeildar hafa ekki slegið slöku við, opin svæði eru vel hirt, götukantar og gangbrautir málaðar og fleira mætti telja. Margir húseigendur hafa tekið til hendinni í sumar, byggt palla og skjólveggi, hellulagt innkeyrslur og almennt snyrt til í kringum sig. Enn er þó svartur blettur í bænum okkar, er kemur að umgengni. Það er fullt af fólki sem sér ekkert athugavert við það að hrúga upp númerslausum bíldruslum og bílhræjum jafnvel svo tugum skiptir, í og við hús sín og fyrirtæki. Mörg dæmi eru einnig um að íbúar geymi þessi djásn sín inni í görðum sínum, þar sem druslurnar komast ekki lengur fyrir á bílastæðunum við húsin. Heilbrigðiseftirlitið virðist hafa gefist upp í baráttunni, og þá er nú fokið í flest skjól. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég tjái mig um þennan blett á samfélaginu okkar. Án efa mun það gerast nú sem fyrr að sjálfskipaðir sérfræðingar í verðmætum og gæslumenn eignarréttar munu rísa upp á afturlappirnar og skammast í bæjarstjóranum fyrir að vera að skipta sér af málum sem honum kemur ekkert við. Það verður þá bara að hafa það. Við sem viljum sjá bæinn okkar fallegan hljótum hins vegar að gera þá kröfu til samborgara okkar að þeir sjái sóma sinn í að hafa snyrtilegt í kringum sig, og taka sig nú á í eitt skipti fyrir öll og fjarlægja þessi verðlausu bíhræ af lóðum sínum og koma þeim á réttan stað þar sem þeim er fargað og eytt. Þetta er ekki flókið. Nú er mikið byggt og margir nýir íbúar eru hér í bænum. Tökum vel á móti þeim með snyrtilegum, bílhræjalausum bæ.
Af vettvangi bæjarráðs
Reglubundinn fundur bæjarráðs var nú í vikunni. Á fundinum var hafin formlega vinna við fjárhagsáætlun næstu ára. Bæjarráðið samþykki vinnuáætlun, ákveðið var jafnframt að kjörnir fulltrúar ásamt deildarstjórum komi saman á vinnustofu fyrri hluta ágústmánaðar, þar sem strengir verða stilltir og áherslur lagðar. Það er mikilvægt nú, m.a. í ljósi erfiðra ytri aðstæðna, að vanda vel til verka þar sem í hönd fara krefjandi tímar með miklum áskorunum þar sem stærsta verkefnið verður að snúa vörn í sókn og efla rekstur og fjárhag sveitarfélagsins. Bæjarráð ákvað á fundinum að bóka sérstaklega um áhyggjur sínar af skerðingu framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en sú skerðing kemur afar illa við rekstur sveitarfélagsins í ár. Bókunin var send þingmönnum kjördæmisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem og forsætis-, fjármála- og sveitarstjórnarráðuneytum.
Hróar
Sonur þessa samfélags, ungur maður í blóma lífsins og Vogamaður í húð og hár, var hrifinn á brott frá okkur í síðustu viku. Baldvin Hróar Jónsson varð bráðkvaddur á heimili sínu 9. júlí s.l. Hróar, sem var starfsmaður Nesbús lét jafnframt til sín taka í nefndum á vegum sveitarfélagsins og á vettvangi UMFÞ. Eftir stöndum við hnípin í sorg og söknuði. Missir fjölskyldunnar er mestur, ég votta eiginkonu, börnum, foreldrum og öllum öðrum aðstandendum Hróars mína dýpstu samúð.
Að lokum Nú fer í hönd sumarleyfi hjá bæjarstjóranum, næsti pistill er ráðgerður 7. ágúst. Ég ætla að mæta á heimaleik Þróttar í kvöld, en þú? Það munar svo sannarlega um stuðninginn. Góða helgi!