Veirufaraldurinn
Þessa dagana og vikurnar er veirufaraldurinn og afleiðingar hans mál málanna. Mikil fjölgun smita á landsvísu er staðreynd, og við hér á Suðurnesjum höfum ekki heldur farið varhluta af þeirri þróun. Samkvæmt nýjustu tölum voru alls 41 smit staðfest á Suðurnesjum, af þeim eru 4 í okkar sveitarfélagi. 6 manns eru í sóttkví hér, en á öllum Suðurnesjum eru yfir 500 manns í sóttkví. Aðgerðarstjórn sveitarfélagsins hefur fundað reglubundið undanfarið, fundargerðirnar má sjá á heimasíðu sveitarfélagsins, undir gula Covid borðanum. Aðgerðarstjórnin tók þá ákvörðun í kjölfar hertra ráðstafana á höfuðborgarsvæðinu fyrir tæpum tveimur vikum að líta til nálægðar okkar við höfuðborgarsvæðið. Af þeim sökum ákváðum við að loka íþróttamiðstöðinni fyrir öllum nema börnum fæddum 2005 eða síðar, og þá einungis til að stunda íþróttir á vegum skólans eða Ungmennafélagsins. Þessi ráðstöfun hafði því miður í för með sér að ekki er unnt að starfrækja íþróttaskóla barnanna, enda fylgir einn fullorðinn hverju barni. Til þessara ráðstafana er gripið til fyrst og fremst til að verja starfsemi grunnskóla og leikskóla, enda hygg ég að við getum öll verið sammála um mikilvægi þess að skólarnir geti starfað eðlilega og að ekki komi upp smit þar. Það er mikilvægt að hafa í huga að með varkárni og með því að fylgja tilmælum sóttvarnarlæknis og almannavarna er unnt að forðast smit. Mikilvægt er að virða fjarlægðartakmörk, forðast fjölmenni, þvo hendur reglulega og spritta, og setja á sig grímu t.d. þegar farið er í búðina. Þetta eru engin geimvísindi. Þetta eru einfaldar, auðskiljanlegar leiðbeiningar sem forða okkur frá því að þessi skæða veira nái að taka sér bólfestu í líkamanum. Stöndum öll saman um að virða og fara eftir þessum tilmælum. Með því móti mun okkur takast að sigrast á veirunni, og bola henni burt.
Samráðsteymið fundar
Samráðsteymi stjórnvalda og hagsmunaaðila á Suðurnesjum hefur nú tekið til starfa að nýju, eftir nokkuð hlé. Fyrsti fundur hópsins var í vikunni, á þeim fundi var farið yfir stöðu mála í landshlutanum. Mörg verkefni eru þegar komin á dagskrá, sem eru til þess fallin að efla atvinnulífið á Suðurnesjum sem og að auka við framlög til ríkisrekinna stofnana í landshlutanum. Miklar vonir eru bundnar við störf samráðsteymisins, sem vonandi leiðir til þess að raunverulegar úrbætur og ekki síður leiðréttingar náist fyrir okkar landshluta. Nú í vikunni bárust ánægjulegar fréttir um að veitt hefði verið fjármagni til uppbyggingar nýrrar heilsugæslu á okkar svæði, nánar til tekið í Innri-Njarðvík. Einnig er von á fjárveitingu til endurbóta á núverandi húsnæði heilsugæslunnar á HSS, sem vonandi leiðir til þess að öll starfsaðstaða og þar með þjónusta við skjólstæðinga stöðvarinnar batna til muna.
Alvarlegar horfur í atvinnumálum
Atvinnuleysi á öllu landinu var um 9% í september samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Staðan á Suðurnesjum er hins vegar mun alvarlegri. Í september var atvinnuleysið á Suðurnesjum 19,6%, og fer hækkandi. Nýjustu spár stofnunarinnar gera jafnvel ráð fyrir að atvinnuleysið geti orðið 25% í desember. Þetta er grafalvarleg staða sem mikilvægt er að bregðast við. Gera má ráð fyrir auknum þunga í beiðnum um fjárhagsaðstoð, sem er bein afleiðing langtíma atvinnuleysis.
Að lokum hvet ég enn á ný til bjartsýni, þrátt fyrir erfiða stöðu og slæmar horfur. Saman tekst okkur að vinna okkur út úr erfiðri stöðu. Ég óska öllum góðrar helgar!