Föstudagspistill 15. 10. 2021

Íbúafundur - kynning á valkostagreiningu

Fimmtudaginn 14. október var efnt til fjölmenns íbúafundar um hugsanleg sameiningarmál sveitarfélagsins. Fundurinn var vel sóttur, um 50 manns voru í Tjarnarsal og rúmlega 40 fylgdust með fundinum í beinu streymi. Bæjarstjórn ákvað fyrr á þessu ári að ráðast í s.k. valkostagreiningu, og fékk RR Ráðgjöf til að hafa umsjón með verkefninu. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga stóð straum af kostnaði við verkefnið. Í apríl og maí s.l. voru haldnar tvær vinnustofur með kjörnum fulltrúum, formönnum nefnda og lykilstjórnendum, þar sem m.a. var unnin s.k. SVÓT (Styrkleikar, Veikleikar, Ógnanir og Tækifæri) fyrir sveitarfélagið. Jafnframt voru skoðaðir valkostir um við hvaða sveitarfélög ætti að ræða yrði á annað borð ráðist í sameiningarviðræður, og hverjar ættu helstu áherslur og samningsmarkmið að vera. Á íbúafundinum voru helstu niðurstöður þessarar vinnu og valkostirnir kynntir, auk þess sem kallað var eftir sjónarmiðum íbúa um hvað skiptir þá máli komi til þess að ákveðið verði að ræða við eitt eða fleiri sveitarfélög um sameiningu. Þeir valkostir sem nefndir eru til sögunnar og lagt er til að verði skoðaðir betur eru þau sveitarfélög sem við eigum lögsögumörk að, þ.e. Hafnarfjörður, Grindavík og Reykjanesbær. Einnig var lagt til sá valkostur að ræða við Suðurnesjabæ, en rík og löng hefð er fyrir samstarfi Voga og Suðurnesjabæjar (áður Sandgerðis og Garðs) um m.a. félags- og fræðsluþjónustu. Af þeim 70 sem tóku afstöðu til spurningarinnar um hvort hefja ætti sameiningarviðræður svöruðu 30 já, 25 sögðu nei og 15 sögðu "veit ekki".  Flestum hugnaðist samtal við Grindavík, þar á eftir kom Suðurnesjabær, loks Reykjanesbær en fæstir vildu ræða við Hafnarfjörð. Á næstunni verður efnt til þriðju og síðustu vinnustofunnar, og í kjölfar hennar munu ráðgjafarnir halda skilafund með bæjarstjórn og kynna niðurstöður verkefnisins. Bæjarstjórn mun í kjölfarið ákveða næstu skref.

Fjárhagsáætlun

Bæjarráð hélt langan vinnufund fimmtudaginn 14. október, og hitti m.a. stjórnendur stofnana sveitarfélagsins. Fjárhagsáætlunin tekur nú smátt og smátt á sig mynd, annar vinnufundur verður í síðustu viku mánaðarins og gert ráð fyrir að fjárhagsáætlunin verði lögð fram á fundi bæjarstjórnar miðvikudaginn 27. október n.k. Allt kapp er lagt á að áætlunin verði í senn raunhæf og til þess fallin að hefja viðsnúning rekstursins til betri vegar, eftir mótvind í rekstrinum í ár og á síðasta ári. 

Safnahelgi

Sveitarfélögin á Suðurnesjum efna til safnahelgar um helgina. Dagskráin er fjölbreytt og kennir þar ýmissa grasa. Sveitarfélagið Vogar tekur þátt í viðburðinum, m.a. með nokkrum ljósmyndasýningum ásamt bókakynningum og upplestri í bókasafninu. Dagskrá safnahelgarinn er öll aðgengileg á www.safnahelgi.is 

Dagbók

Vikan einkenndist sem fyrr af vinnu við fjárhagsáætlun, ásamt ýmsum öðrum verkefnum.

Mánudagur: Stöðufundur Almannavarna. Fundur í bakhóp í húsnæðismálum sveitarfélaga.

Þriðjudagur: Vinnufundir um fjárhagsáætlun. Samráðsfundur með fulltrúum Grænubyggðar ehf. um uppbyggingu á Grænuborgarsvæðinu.

Miðvikudagur: Fundur sveitarfélaganna á Suðurnesjum með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um rafrænar húsnæðisáætlanir. Kynningarfundur KPMG um breytingar á reikningsskilum sveitarfélaga. 

Fimmtudagur: Vinnufundur bæjarráðs um fjárhagsáætlun. Vinnufundur bæjarstjórnar um úrskurð Úrskurðarnefndar Umhverfis- og Auðlindamála, vegna Suðurnesjalínu 2. Íbúaundur um valkosti í sameiningarmálum.

Föstudagur: Stöðufundur Almannavarna. Aðalfundur Öldungaráðs Suðurnesja.

Að lokum óska ég öllum góðrar helgar - og minni í leiðinni á fjölbreytta dagskrá Safnahelgar. 

 

Getum við bætt efni síðunnar?