Föstudagspistill 14.5.2021

Framkvæmdafréttir

Framkvæmdir við göngu- og hjólreiðastíg frá Vogum að Brunnastaðahverfi ganga vel, og eru langt komnar. Gert er ráð fyrir að stígurinn verði malbikaður innan fárra vikna, en verklok eru ráðgerð 21. júní n.k. Með tilkomu stígsins eykst til muna öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Vinna stendur einnig yfir við framlengingu fráveitulagnar í Hafnargötu, framkvæmd sem gert er ráð fyrir að ljúki 21. maí n.k. HS Veitur standa einnig í talsverðum framkvæmdum, þar sem lagnir fyrir heitt og kalt vatn, rafmagn og fjarskipti eru nú framlengdar að Grænuborgarhverfi. Þær framkvæmdir eru langt komnar, og hillir undir lok þeirra á næstu dögum. Loks er frá því að segja að í næstu viku hefjast framkvæmdir við frágang gangstétta og stíga á miðbæjarsvæðinu.

 

Kaup á verslunarhúsnæði

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í lok apríl að festa kaup á húsnæði því sem áður hýsti Verslunina Voga, þ.e. í sama húsi og bæjarskrifstofurnar eru til húsa. Verslunin hætti starfsemi fyrir nokkru, en síðan þá hefur verið starfræktur veitingastaður í húsnæðinu. Nú hafa eigendur þess staðar ákveðið að loka og hætta starfseminni. Bæjaryfirvöldum fannst mikilvægt við þessar aðstæður að leggja sitt að mörkum, og hyggst með kaupunum á húsnæðinu leita leiða til að dagvöruverslun verði starfrækt að nýju í sveitarfélaginu. Þegar hefur verið leitað til nokkurra aðila sem starfa á dagvörumarkaði, og standa vonir okkar til að þær skili árangri. Mikilvægt er fyrir íbúa sveitarfélagsins að hafa aðgang að verslun með helstu vörur í nærumhverfi sínu, og vill sveitarfélagið því með þessari aðgerð leggja sitt að mörkum til að svo geti orðið.

Ærslabelgur

Í dag, föstudag, hefjast framkvæmdir við uppsetningu ærslabelgs. Honum hefur verið fundinn staður við hlið sundlaugarinnar. Við vonumst til að hann verði kominn í gagnið á næstu dögum eða vikum, þannig að allir sprellfjörugir, jafnt ungir sem aldnir, sem hafa gaman af því að hoppa hátt í loft upp, geta strax farið að hlakka til.

 

Flotbryggja

Bæjarstjórn samþykkti nýverið á fundi sínum að selja flotbryggju og landgang, ásamt tilheyrandi búnaði. Tildrög málsins eru þau að búnaðurinn stenst ekki álagið þegar verstu vetrarveðrin ganga yfir, svo hann nýttist einungis vor, sumar og haust. Vogasjóferðir ákváðu því að leita til Reykjaneshafna, sem geta veitt þeim aðstöðu sem er opin árið um kring. Þegar það lá fyrir varð að samkomulagi að Reykjaneshöfn keypti búnaðinn af Vogahöfn, og verður hann nú settur upp á skjólgóðum stað í Keflavíkurhöfn. Það er því fagnaðarefni fyrir Vogasjóferðir að fá nú aðstöðu fyrir starfsemi sína allt árið um kring.

 

Hafnarkrani endurnýjaður

Höfnin hefur nú fest kaup á krana, sem kemur í stað þess gamla sem skemmdist í bruna. Þrátt fyrir að nánast ekkert sé um löndun í höfninni, er eigi að síður mikilvægt að krani sé til staðar fyrir þá sem þurfa á honum að halda. Jafnframt mun hann nýtast björgunarsveitinni vel, því komi til þess að sjósetja þurfi björgunarbát þeirra nýtist kraninn vel til þess.

Að lokum óska ég öllum góðrar helgar!

 

Getum við bætt efni síðunnar?