Föstudagspistill 14.2.2020

Óveður 14.02.2020

Mikið óveður gekk yfir landið í aðfararnótt föstudagsins 14.febrúar og fram eftir degi. Þegar þetta er skrifað er vindur aðeins byrjaður að ganga niður, og standa vonir til að veður verði orðið þokkalegt þegar líður á daginn. Þegar er vitað um eignatjón, en sem betur fer hafa engin slys orðið á fólki. Við aðstæður sem þessar grípa yfirvöld til nauðsynlegra varúðarráðstafana, sem mikilvægt er að virða. Vegum var á tímabili lokað, skólahald lá niðri og því fáir á ferli. Hér í Vogum hafa a.m.k. tvö þök fokið, um er að ræða lítil garðhús en ekki íbúðarhús. Þá fréttist af geymslubragga við Kálfatjörn, sem þar hefur staðið til margra ára, en hann fauk af grunninum. Ekki er vitað um neinar skemmdir á höfninni eða bátum sem þar eru.  Vonandi fer nú þessum vondu vetrarveðrum að linna, enda mál til komið.

 

Endurskoðun aðalskipulags

Í gær, fimmtudaginn 13. febrúar, var haldinn fjölmennur og vel heppnaður kynningarfundur í Álfagerði. Bæjarstjórnin ákvað í upphafi kjörtímabilsins að ráðast í heildarendurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins á kjörtímabilinu, og skipaði sérstakan stýrihóp til að annast umsjón með því verkefni. Hópurinn hefur þegar komið saman á nokkrum vinnufundum, og hafið undirbúning verkefnisins. Nú liggur fyrir skipulags- og matslýsing verkefnisins, þar sem fram kemur m.a. hvaða þættir verða teknir til skoðunar í þeirri vinnu sem framundan er. Það skjal er nú aðgengilegt á vef sveitarfélagsins og er óskað eftir umsögnum og ábendingum við lýsingunni. Á næstunni munu allar fagnefndir sveitarfélagsins fá skýrsluna til umsagnar, enda mikilvægt að nýtt aðalskipulag hafi góðar tengingar við stefnumótun sveitarfélagsins í hinum ýmsu málaflokkum.

 

Raforku- og samgönguöryggi

 

Fyrir skömmu kom s.k. Verkefnaráð Landsnets saman til fundar, en ráðið var sett á laggirnar á sínum tíma sem vettvangur aukins samráðs milli Landsnets og hinna ýmsu hagsmunaaðila sem hlut eiga að máli. Á síðasta ári var lokið við gerð s.k. frummatsskýrslu, þar sem kynntur var aðalvalkostur Landsnets um að leggja Suðurnesjalínu 2 sem loftlínu (að mestu leyti) meðfram Suðurnesjalínu 1. Sveitarstjórnin í Vogum lýsti sig andsnúna þeim kosti, og lagði til að lagður yrði jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut. Til vara var lagt til að strengurinn yrði lagður í jörðu meðfram Suðurnesjalínu 1, reyndist það ekki raunhæfur kostur að leggja strenginn meðfram Reykjanesbraut. Á fyrrnefndum verkefnaráðsfundi kynnti fulltrúi Vegagerðarinnar sjónarmið stofnunarinnar varðandi þessa lausn, og kom þar fram að gerlegt er að leggja strenginn í jaðar veghelgunarsvæðisins. Við þá aðgerð mætti jafnframt auka öryggi vegarins, þar sem unnt væri að nýta framkvæmdina til að bæta öryggissvæðin meðfram veginum. Hér er því komið kjörið tækifæri til að slá tvær flugur í einu höggi, þ.e. að leggja strenginn í jörð ásamt því að bæta umferðaröryggið. Landsnet bendir hins vegar á að þeim beri að fara að fyrirmælum sem fram koma í stefnu stjórnvalda um flutningskerfi raforku, þar sem gengið er út frá því að meginflutningskerfið skuli vera í loftlínum og að ekki sé heimild til að velja dýrari kosti. Sveitarfélagið mun á næstunni fylgja þessu máli eftir við stjórnvöld, í þeirri von að unnt sé að finna ásættanlega lausn.

 

Að lokum  Þrátt fyrir válynd veður undanfarið er bjart framundan, enda dagarnir sífellt að lengjast. Ég óska öllum góðrar helgar!

Getum við bætt efni síðunnar?