Föstudagspistill 14.08.2020

Fjárhagsáætlun

Vinna við fjárhagsáætlunargerð næsta árs og næstu fjögurra ára er komin af stað. Að þessu sinni leggjum fyrr af stað í þessa vinnu en undanfarin ár, sem er mikilvægt ekki síst í ljósi þeirrar óvissu sem framundan er í rekstrarumhverfinu. Bæjarstjórn og forstöðumenn hafa nú þegar hist á vinnustofu, og munu hittast aftur eftir mánaðamótin. Á vinnustofunum er farið yfir mikilvægi markmiðssetningar í fjárhagsáætlunargerðinni ásamt því að fjalla um verklag og forgangsröðun. Allir forstöðumenn vinna þessa dagana að tillögum sínum til bæjarráðs, um rekstur stofnana þeirra á næsta ári. Ljóst er að fjölmargar áskoranir blasa við okkur á næsta ári, því ljóst er nú þegar að gera má ráð fyrir umtalsverðum tekjusamdrætti. Þar kemur ýmislegt til, framlög Jöfnunarsjóðs munu skerðast og gera má ráð fyrir að útsvarstekjur muni einnig dragast saman. Það lítur því út fyrir að erfitt verði að ná endum saman í rekstrinum á næsta ári að óbreyttu. Bæjarstjórn og stjórnendur sveitarfélagsins eru einhuga um að standa vörð um grunnþjónustuna, en gæta jafna ítrustu ráðdeildar og sparnaðar svo reksturinn verði eins hagkvæmur og mögulegt er.

 

Af vettvangi bæjarstjórnar

Bæjarstjórnin kemur saman til fundar að nýju í lok ágúst, að afloknu sumarleyfi. Bæjarráð hefur fundað reglubundið í sumar, og hefur samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála meðan á sumarleyfi bæjarstjórnar stendur. Bæjarráð fær á öllum fundum yfirlit um stöðu reksturs og framkvæmda, og hefur með því móti tækifæri til að fylgjast náið með hvernig mál þróast. Enn sem komið er sjáum við lítinn samdrátt í útsvarstekjum m.v. áætlun, en þó má greina að þær eru farnar að dragast saman undanfarnar vikur.

 

Suðurnesjalína 2

Undanfarnar vikur og mánuði hafa sveitarfélögin sem fyrirhuguð Suðurnesjalína 2 mun liggja um fjallað um málefni framkvæmdarinnar. Skipulagsstofnun gaf út álit fyrr á árinu, þar sem sveitarfélögunum var beinlínis uppálagt að komast að sameiginlegri niðurstöðu varðandi legu og gerð línunnar. Sem kunnugt er hafa bæði Reykjanesbær og Sveitarfélagið Vogar lýst sig andsnúna þeirri hugmynd að línan verði loftlína, en verði þess í stað lögð í jörðu. Landsnet hefur hins vegar lagt til loftlínu. Fundað hefur verið með ýmsum aðilum um málið, t.d. jarðvísindamönnum, Orkustofnun, Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu og Landsneti. Lausn er því miður ekki enn í sjónmáli. Bæjarstjórn mun á næsta fundi sínum fjalla um málið og þau gögn sem fram hafa komið undanfarið. Í kjölfarið má gera ráð fyrir að samtal eigi sér stað milli sveitarfélaganna annars vegar og Landsnets hins vegar þar sem áhersla verður lögð á að ná ásættanlegri niðurstöðu.

 

Flugeldasýning annað kvöld!

Ef allt hefði verið eðlilegt værum við að halda fjölskyldudaga nú í vikunni og um helgina. Við vitum öll að svo verður ekki – í þjóðfélaginu er óvissuástand og fjöldatakmarkanir í gildi til að forðast veirusmit. Eina sárabótin er sú að Björgunarsveitin Skyggnir verður með sína árlegu flugeldasýningu annað kvöld kl. 23:00. Ég vona að íbúar njóti sýningarinnar – henni verður skotið upp af hefðbundnum stað nálægt Vogatjörn.

 

Að lokum óska ég öllum góðrar helgar. Þessu ástandi mun ljúka – höldum þetta út!

Getum við bætt efni síðunnar?