Sumarfundur ríkisstjórnarinnar
Ríkisstjórnin hélt sinn árlega sumarfund að þessu sinni á Suðurnesjum. Sveitarstjórnarmönnum í landshlutanum var boðið að koma og hitta ríkisstjórnina, þar sem farið var yfir helstu málefni svæðisins. Fundir sem þessir eru í raun mög gagnlegir, skipst er á upplýsingum um stöðu mála og dregnar fram helstu áherslur er varða landshlutann og sveitarfélögin í honum. Undanfarin ár hefur verið rauður þráður í samtalinu áhyggjur heimamanna af málefnum heilsugæslu. Það voru því sannarlega góð tíðindi sem heilbrigðisráðherra færði fundarmönnum, um að nú verði auglýst eftir húsnæði fyrir nýja heilsugæslustöð sem bráðabirgðalausn meðan beðið er eftir byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í Reykjanesbæ. Vonir okkar hér á bæ eru að með þessu leysist einnig úr húsnæðismálum fyrir heilsugæslumóttöku í Vogum, sem lokaði í upphafi faraldursins og hefur ekki opnað að nýju. Mikilvægt er fyrir íbúa sveitarfélagsins að hafa aðgang að þessari þjónustu í heimabyggð, ekki síst fyrir þá sem erfitt eiga með að koma sér á milli staða. Vonandi fæst viðunandi lausn í þetta brýna hagsmunamál sem fyrst.
Fjölskyldudögum frestað
Nú í vikunni og um helgina stóð til að halda fjölskyldudaga sveitarfélagsins, sem er hin árlega bæjarhátíð okkar. Vegna gildandi samkomutakmarkana reyndist nauðsynlegt að fresta hátíðinni, með þá von í brjósti að unnt sé að halda hana síðar. Nú er stefnt á að halda hátíðina laugardaginn 11. september og dagana þar í kring. Til að það gangi upp verða samkomutakmarkanir að vera rýmri en nú er, og auðvitað mikilvægt jafnframt að þá verði búið að ná tökum á útbreiðslu smita. Sem stendur eru 4 íbúar sveitarfélagsins smitaðir af Covid veirunni.
Framkvæmdafréttir
Framkvæmdir ársins á vegum sveitarfélagsins hafa gengið að mestu samkvæmt áætlun það sem af er. Nú er unnið að frágangi göngustíga, gangstétta og kantsteina á miðbæjarsvæðinu. Verkinu miðar ágætlega. Búið er að auglýsa eftir tilboðum í lagningu nýrrar útrásar fyrir fráveitu frá Grænuborgarhverfi. Á döfinni er jafnframt að auglýsa útboð á byggingu nýrrar dælu- og hreinsistöðvar fyrir fráveituna, sem verður væntanlega unnið í haust og vetur. Ekkert verður úr virkjun nýs vatnsbóls að svo stöddu, þar sem ekki hafa náðst samningar við meðeigendur sveitarfélagsins um kaup á landi undir nýtt vatnsból. Þau mál eru því í óvissu enn um sinn.
Fjárhagsáætlun næsta árs
Sumarið hefur verið vel nýtt fyrir undirbúning að gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Að þessu sinni tengist undirbúningurinn og vinnan mjög við úttekt á fjárhag og rekstri sem unnin var fyrr á þessu ári, og hefur verið fjallað um á vettvangi bæjarráðs. Nú þegar hefur bæjarráð markað stefnuna og sett sér markmið, sem verða góðir vegvísar í vinnunni framundan. Undirbúningur heldur áfram af fullum krafti næstu vikur, sem leiðir smátt og smátt til þess að áætlun næsta árs tekur á sig mynd.
Að lokum Það er liðið á seinni hluta sumarsins. Undanfarið hefur veðráttan verið góð, og því unnt að njóta útiveru í góðviðrinu. Bærinn okkar er vel og fallega hirtur, þökk sé öllum duglegu ungmennunum okkar í Vinnuskólanum. Þau hafa staðið sig með prýði í sumar og unnið gott verk. Ég óska öllum góðrar helgar og býð alla sem eru að koma úr sumarleyfum velkomin til leiks á ný!