Jarðhræringar og náttúruvá
Ekkert lát er á jarðhræringum á Reykjanesskaga. Undanfarna daga hefur skjálftavirknin færst meira til suðurs og vesturs, og þar með fjær frá okkur. Þeim mun meira mæðir á nágrönnum okkar í Grindavík, sem ekki hafa varið varhluta af þeim miklu jarðhræringum sem hafa riðið yfir undanfarin dægur. Á hverjum sólarhring mælast á bilinu 1500 – 2500 skjálftar á svæðinu. Heildarfjöldi jarðskjálfta frá því hrinan hófst þ. 24. febrúar s.l. er nú kominn yfir 35.000 – borið saman við u.þ.b. 1.000 – 3.000 skjálfta á ári alla jafna. Stór skjálfti reið yfir rétt fyrir kl. 8 í morgun, sem var um 5,0 af stærð. Ef kvikugangurinn heldur áfram að færast til suðvesturs er sá möguleiki til staðar að gosið geti í sjó með tilheyrandi öskufalli.
Rýmingaráætlun
Vinna við frágang rýmingaráætlun sveitarfélagsins hefur verið á fullum skrið undanfarna daga. Rýmingarkort með flóttaleiðum eru nú tilbúin, og verða birt á heimasíðu sveitarfélagsins í dag. Allar innri áætlanir sveitarfélagsins um rýmingu eru tilbúnar, og bíða þess nú að verða hluti af heildarskjalinu sem er í smíðum. Það skjal er heildstæð rýmingaráætlun fyrir Sveitarfélagið Voga, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Gert er ráð fyrir að vinnu við þessi gögn ljúki í næstu viku. Sveitarfélagið ráðgerir að halda kynningarfund fyrir íbúa sveitarfélagsins og aðra áhugasama um leið og gögnin eru tilbúin, og verður það auglýst þegar þar að kemur. Gert er ráð fyrir að sá fundur verði sendur út á Facebook síðu sveitarfélagsins, og að upptakan verði síðan aðgengileg á YouTube síðu sveitarfélagsins. Meðan á útsendingunni stendur geta áhorfendur sent inn spurningar sem leitast verður við að svara á fundinum og meðan á útsendingunni stendur.
Vefmyndavél
Búið er að koma fyrir vefmyndavél á þaki íþróttamiðstöðvarinnar, sem unnt er að beina að því svæði sem kvika kann hugsanlega að koma upp. Hlekkur á myndavélina er nú þegar aðgengilegur á heimasíðunni. Fjölmargar aðrar vefmyndavélar eru til staðar á svæðinu, m.a. á vef Víkurfrétta og RÚV.
Varnir mikilvægra innviða
Nú hefur verið settur á stofn vinnuhópur undir stjórn Almannavarna sem hefur það hlutverk að kortleggja og verja innviði á Reykjanesi komi til eldgoss eða annarrar náttúruvár. Ríkisstjórnin samþykki á fundi sínum fyrr í dag tillögu Almannavarna um slíkan hóp, en aðild að honum eiga m.a. sveitarfélögin á svæðinu, veitufyrirtæki, stjórnarráðið, Póst-og fjarskiptastofnun, Vegagerðin, sérfræðihópur verkfræðinga o.fl.
Að lokum
Það hafa að sönnu verið viðburðarríkis dagar undanfarið. Stöðugar jarðhræringar reynast mörgum erfið upplifun, og við erum stöðugt minnt á hversu lítil og berskjölduð við erum þegar náttúruöflin eru annars vegar. Þá er mikilvægt að muna að sú atburðarrás sem nú er í gangi bendir ekki til aðsteðjandi hættu fyrir samfélagið okkar, hvorki hér í okkar sveitarfélagi né annars staðar á Reykjanesi. Gott er að vita af öflugum viðbragðsaðilum sem stöðugt fylgjast með, og eru til staðar fyrir okkur ef hætta steðjar að. Björgunarsveit, lögregla, almannavarnir og aðrir viðbragðsaðilar gegna hér lykilhlutverki, sem mikilvægt er að treysta og fylgja fyrirmælum frá ef svo ber undir.
Ég óska öllum góðrar helgar!