Tjaldsvæðið í Vogum
Nú eru hafnar framkvæmdir á tjaldsvæði sveitarfélagsins. Um er að ræða lagningu fráveitu og vatnsveitu inn á svæðið, en einnig stendur til að koma þar fyrir nýju aðstöðuhúsi með salernum og sturtum. Þá hefur rekstraraðili svæðisins einnig hafist handa við gerð undirstaða fyrir þrjú smáhýsi, sem eru væntanleg innan skamms. Þau verða leigð út sem gistirými. Húsnæði sem áður hýsti veitingahúsið Jón sterka er nú komið í eigu rekstraraðilans, og verður framvegis nýtt sem þjónustumiðstöð fyrir gesti tjaldstæðisins. Þjónusta við gesti tjaldsvæðisins stendur því til mikilla bóta og unnt að taka vel á móti gestum á tjaldsvæðið, sem fer ört fjölgandi. Sveitarfélagið gerði samkomulag við rekstraraðila á síðasta ári, og fór starfsemin vel af stað. Með aukinni þjónustu og bættri aðstöðu má fastlega gera ráð fyrir að starfsemin eigi eftir að vaxa og dafna í ár.
Þjónustumiðstöð
Framkvæmdir við nýja þjónustumiðstöð sveitarfélagsins eru nú komnar á fullan skrið. Þessa dagana er unnið að frágangi undirstaða, sem voru steyptar nú í vikunni. Um er að ræða stálgrindarhús, sem von er á að rísi í maí eða júní. Eins og áður hefur komið fram á þessum vettvangi mun þjónustumiðstöðin hýsa alla starfsemi umhverfisdeildar sveitarfélagsins, en deildinni fylgir ýmiss tækjakostur. Þá verður dælubíll frá Brunavörnum Suðurnesja staðsettur í húsinu, sem er mikið framfaraskref og öryggisatriði fyrir íbúa, fyrirtæki og stofnanir sveitarfélagsins. Viðbragðstími slökkviliðs mun því styttast umtalsvert frá því sem nú er, beri vá að höndum. Það er einnig ánægjulegt að segja frá því að a.m.k. tveir íbúar sveitarfélagsins sóttu um að komast að í varalið slökkviliðsins, og eru um þessar mundir í undirbúnings- og þjálfunarferli.
Miðbæjarsvæðið
Framkvæmdir við íbúðabyggingar á miðbæjarsvæði eru nú farnar að taka á sig mynd. Nú er þriðja húsið af fimm fjölbýlishúsum að rísa, en það er fyrirtækið Fjarðarmót ehf. sem stendur að þeim framkvæmdum. Í hverju húsi eru 6 íbúðir, þannig að alls verða þetta 30 íbúðir sem verða tilbúnar í þessum húsum nú í ár. Þá er eitt parhús að rísa og þegar eitt einbýlishús risið. Framkvæmdir við undirstöður fleiri húsa eru komnar á góðan rekspöl, og má gera ráð fyrir að nokkur einbýlishús rísi hvert af öðru á næstu vikum. Einbýlishús þessi eru einingahús, framleidd af Húseiningum ehf., sem staðsett er hér í Vogum
Íbúum fjölgar
Fjöldi íbúa í upphafi árs 2018 var 1.266, en í árslok voru þeir orðnir 1.287. Okkur fjölgaði því einungis um 21 íbúa á síðasta ári, eða sem nemur 1,7%. Það er heldur minni fjölgun er almennt er hér í landshlutanum. Áður hefur komið fram á þessum vettvangi að líklegustu skýringar á því hversu lítil fjölgunin er hér má rekja til þeirrar staðreyndar að skortur er á íbúðarhúsnæði. Í upphafi þessarar viku eru íbúarnir nú orðnir 1.292, þannig að það styttist í að 1.300 íbúa múrinn verði rofinn. Það má svo fastlega gera ráð fyrir að fjölgunin taki góðan kipp um leið og íbúðirnar sem nú eru í byggingu á miðbæjarsvæðinu verða teknar í notkun síðar á þessu ári
Að lokum
Vel heppnuð árshátíð okkar var haldin um síðustu helgi. Ég vil nota tækifærið og þakka undirbúningsnefndinni fyrir þeirra vinnu, sem skilaði sér í frábærri árshátíð. Næsti föstudagspistill kemur út 26. apríl, en nú fara páskar í hönd. Ég óska öllum góðrar helgar og gleðilegra páska!