Alvarleg staða á Suðurnesjum
Undanfarna daga hafa borist dapurlegar fréttir héðan af svæðinu. Afleiðingar kórónuveirufaraldursins halda áfram, en um síðustu mánaðamót var talsvert um uppsagnir hér í landshlutanum. Bæjarráð fjallaði um atvinnuleysið á fundi sínum í síðustu viku, og lagði m.a. fram bókun með hvatningu til ríkisvaldsins að styðja við sveitarfélagið vegna mikils samdráttar í tekjum. Atvinnuleysið í ágúst var 17% á Suðurnesjum, en um 13% hér hjá okkur. Gera má ráð fyrir að tölurnar eigi eftir að hækka enn frekar. Við bæjarstjórar á Suðurnesjum ásamt framkvæmdastjóra SSS funduðum í gær með forsætisráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um málið, og fórum með þeim yfir hina alvarlegu stöðu sem nú er. Fundurinn var í hreinskiptinn og gagnlegur, þar sem m.a. var rætt um tillögur okkar Suðurnesjamanna sem lagðar voru fram sem tillögur til viðspyrnu.
Óvissa í rekstri
Um þriðjungur tekna bæjarsjóðs eru framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þegar liggur fyrir að þessi framlög verða skert um 12,5% á þessu ári, sú skerðing hefur í för með sér u.þ.b. 35 m.kr. tekjulækkun hjá bæjarsjóði. Nú hefur einnig verið birt áætlun sjóðsins um tekjujöfnunarframlög ársins. Tekjujöfnunarframlagið árið 2019 var tæpar 58 m.kr. Spáin okkar fyrir árið í ár var 60 m.kr. Nú hefur sjóðurinn birt frétt um hvert framlagið verður í ár, og okkur til mikilla vonbrigða verður það einungis 27 m.kr. Lækkunin frá fyrra ári er 31 m.kr., þannig að í heild lækka framlög Jöfnunarsjóðs 66 m.kr. milli ára. Það munar um minna. Framundan er óvissa um þróun útsvarstekna, enda óvissa mikil í atvinnumálum. Fari svo að atvinnuleysi aukist meira en þegar er orðið, má gera ráð fyrir að tekjur einstaklinga lækki umtalsvert þegar líða tekur á haustið. Útgjöld sveitarfélagsins eru nokkurn veginn í samræmi við áætlun ársins. Framundan eru því óvissutímar í rekstri bæjarsjóðs. Allt kapp verður vitaskuld lagt á að halda áfram úti góðri þjónustu og að standa vörð um starfsemi sveitarfélagsins.
Landsnet – Suðurnesjalína 2
Bæjarstjórn fundaði með fulltrúum Landsnets í vikunni um málefni Suðurnesjalínu 2. Enn er erfið staða uppi í því máli, Landsnet telur sig ekki geta gert annað en að halda sig við áform um að leggja loftlínu, en Sveitarfélagið Vogar er því andsnúið og vill að línan verði lögð í jörð. Undir þessi sjónarmið hafa bæði Reykjanesbær og Skipulagsstofnun tekið. Málið var til umræðu á fundi okkar bæjarstjóra með ráðherranefnd í gær. Landsnet ber ávallt fyrir sig stefnu stjórnvalda um að samkvæmt henni beri þeim að sækja um loftlínu. Það reynir því á stjórnvöld nú hvort vilji sé til að breyta stefnunni á þann veg, að heimilt verði að leggja línuna í jörð og þar með koma á varanlegri og öruggri lausn sem er til þess fallin að auka afhendingaröryggi raforku til Suðurnesja sem og að vera sú lausn sem allir hagsmunaaðilar geta sameinast um.
Knattspyrnan
Það gengur ágætlega hjá meistaraflokki karla í 2. deild Íslandsmótsins, góður útisigur í vikunni á ÍR, 3-1. Á sunnudag er heimaleikur kl. 16, þegar KF kemur í heimsókn. Þróttur er nú í 4. sæti deildarinnar.
Að lokum
Þrátt fyrir erfiða tíma er full ástæða fyrir okkur að vera bjartsýn og vongóð. Samfélagið okkar er og gott – við höfum það áfram þannig. Góða helgi!