Föstudagspistill 11. júní 2021

Opnar ný verslun?

Sveitarfélagið festi nýverið kaup á húsnæði því sem áður hýsti Verslunina Vogum, og síðar veitingastaðinn sem þar var starfræktur. Eftir að rekstraraðilar ákváðu að loka staðnum ákvað bæjarstjórn að kaupa húsnæðið og freista þess að leigja það út til áhugasamra aðila sem treysta sér til að opna og starfrækja verslun með dagvöru. Enn sem komið er hefur það ekki tekist. Það er ljóst að á brattann er að sækja í þessum málum, stutt er í lágvöruverslanir með góðu úrvali. Erfitt er fyrir einkaaðila að keppa við stóru matvörukeðjurnar, enda innkaupaverðið lágt hjá þeim í krafti stærðarinnar. Vinnan um þessar mundir beinist því einkum að því að fá einhverja af ráðandi aðilum geirans til samstarfs um að opna verslun í bænum. Með stækkandi bæ og fjölgun íbúa verður vonandi einhvers virði fyrir þá aðila að hasla sér völl fyrir framtíðaruppbygginguna.

 

Framkvæmdafréttir

Framkvæmdir við göngu- og hjólreiðastíg milli Voga og Brunnastaðahverfis ganga vel og eru langt komnar. Búið er að móta stíginn og taka í rétta hæð, unnið er að frágangi á fláum stígsins. Gert er ráð fyrir að hann verði malbikaður á næstu dögum, og tekinn formlega í notkun að því loknu, væntanlega í næstu viku. Stígurinn verður mikil samgöngubót fyrir þá íbúa sveitarfélagsins og aðra vegfarendur sem ferðar fótgangandi og/eða hjólandi milli Voga og Brunnastaðahverfis. Framkvæmdir við göngustíga, gangstéttir, kantsteina o.fl. á miðbæjarsvæðinu eru hafnar, og munu standa yfir næstu vikur. Framkvæmdum HS Veitna við lagnir meðfram Stapavegi og Vatnsleysustrandarvegi lýkur senn, búið er að leggja allar lagnir og þessa dagana er unnið að lokafrágangi.

 

Grunnskóli og vinnuskóli

Í vikunni voru skólaslit í Stóru-Vogaskóla. Fríður hópur nemenda 10. bekkjar útskrifaðist við hátíðlega athöfn, og halda nú á vit nýrra áskorana. Nemendur fá nú kærkomið sumarleyfi, sem verður nýtt bæði við leik og störf. Leikjaskólinn hefur nú tekið til starfa, og vinnuskólinn fer af stað næstu daga. Vinnuskólinn er nokkuð vel mannaður að þessu sinni, og því má gera ráð fyrir að við sjáum fjölmenna hópa barna og ungmenna að störfum við fegrun og hreinsun bæjarins næstu vikurnar. Munum að aka varlega um bæinn og taka tillit til þeirra í störfum þeirra. Ég hvet jafnframt bæjarbúa til að fegra sjálfir sitt nærumhverfi.

 

Knattspyrnan

Leiktíðin hjá Meistaraflokki Þróttar er komin á fullan skrið. Þróttur hefur nú leikið 6 leiki, og er sem stendur í 6. sæti deildarinnar með 10 stig. Stórleikur umferðarinnar var í gær (fimmtudag), þegar Þróttur tóku á móti nágrönnum sínum Reyni úr Sandgerði. Þróttur átti ekki nægjanlega góð svör við góðum leik Reynis og þurftu því að játa sig sigraða með 1-3. Það er nokkuð ljóst að 2. deild karla í ár er sterk, og hart verður barist um tvö efstu sætin sem opna aðgang að Lengjudeild karla á næstu leiktíð. Enn eru mörg stig í pottinum og allt galopið. Ég er ekki í nokkrum vafa um að liðsmenn muni enn eflast þrátt fyrir mótlætið í gær, bíta í skjaldarrendur og sækja fram til sigurs í næsta leik, sem verður á móti Leikni í Fjarðarbyggð laugardaginn 19. júní n.k.

 

Að lokum vek ég athygli á því að dagskrá verður í og við Tjarnarsal á þjóðhátíðardaginn, 17. júní. Nánar um það á heimasíðu sveitarfélagsins. Góða helgi!

 

Getum við bætt efni síðunnar?