Átaks er þörf
Þessa dagana stendur yfir Umhverfisvika, undir merkjum slagorðsins „Vertu til er vorið kallar á þig“. Með þessu vill sveitarfélagið hvetja íbúa sína til að huga að umhverfinu og með því gera fallega bæinn okkar snyrtilegan fyrir sumarið. Umhverfisdeildin sér um að hirða og tæma plastpoka með garðaúrgangi, sem heimilt er að skilja eftir við lóðamörk. Þá er gámur fyrir spilliefni til staðar á gámasvæðinu, og síðast en ekki síst er einnig boðið upp á að fjarlægja járnarusl s.s. bílhræ og annað sambærilegt.
Það er þetta með bílhræin í bænum okkar. Heilbrigðis-eftirlitið réðist í heilmikið átak síðasta sumar, sem skilaði ágætis árangri. Það er hins vegar eins og ný bílhræ spretti jafnharðan upp að nýju. Pistlahöfundur tók sig til og ók um allar íbúagötur bæjarins, og taldi fjölda númerslausra bíla í öllum götum. Flestir þessara bíla voru í innkeyrslum, sumir úti á götu og enn aðrir inni á lóðum. Ég er viss um að margir eigi erfitt með að trúa tölunni, en ég taldi 76 númerslausa bíla. Sjötíuogsex! Í einni götu eru 14 númerslausir bílar. Þetta er hreint með ólíkindum. Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja alla íbúa sveitarfélagsins til að huga nú að því hvers konar umgengni þeir bjóða sjálfum sér og nágrönnum sínum upp á. Við getum gert betur en þetta. Flestir þessara númerslausu bíla eru verðlausir, þeir eiga án efa heima í endurvinnslunni. Það er hægt að láta fjarlægja þessa bíla og koma þeim í endurvinnslu hjá þar til bærum aðilum, og fæst þá skilagjald greitt. Ég vona að íbúar sjái að sér og sameinist um að taka nú til hendinni, nýta tækifærið og láta fjarlægja illa útlítandi bílhræ af lóðum sínum. Sú leið sem sveitarfélagið hefur til að takast á við vanda sem þennan er að leita til Heilbrigðiseftirlitsins og láta fjarlægja þessi bílhræ á kostnað eigenda. Vonandi þarf ekki til þess að koma.
Atvinnuleysi eykst
Á síðasta fundi stjórnar Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja, voru nýjustu tölur um atvinnuleysi kynntar. Eins og kunnugt er urðu miklar breytingar til hins verra á okkar atvinnusvæði í lok mars, í kjölfar gjaldþrots WOW flugfélagsins. Í lok apríl voru alls 960 manns á atvinnu-leysisskrá hér á Suðurnesjum, þar af voru 42 atvinnulausir í okkar sveitarfélagi. Atvinnuleysið á svæðinu nú er um 6,3%, en var á sama tíma í fyrra 2,7%. Það er því ljóst að tölurnar hafa þróast mjög til hins verra, og það sér væntanlega ekki enn fyrir endann á þessari þróun. Við þurfum því að huga vel að þessum málum á næstu vikum og mánuðum, og vonandi tekst sveitarfélögunum á Suðurnesjum að bregðast sameiginlega við þessum aukna aðsteðjandi vanda með markvissum aðgerðum.
Af vettvangi bæjarstjórnar
Bæjarstjórn fundaði í vikunni eins og jafnan í síðustu viku hvers mánaðar. Að þessu sinni voru einungis fundargerðir nefnda á dagskrá fundarins, og þær lagðar fram til staðfestingar hjá bæjarstjórn. Með staðfestingu síðustu fundargerðar Skipulagsnefndar hefur nú verið samþykkt að setja upp Frisbeegolfvöllinn í og við Aragerði. Körfurnar hafa þegar verið keyptar, og því er ekkert til fyrirstöðu að hefjast handa við uppsetningu þeirra.
Að lokum
Undanfarnir dagar hafa verið einstaklega sólríkir og bjartir. Það veitir birtu og yl í sálina, ekki síst fyrir þá sem muna eftir leiðindunum í veðrinu á sama tíma í fyrra. Þessa dagana er grunnskólinn að ljúka vetrarstarfinu, vinnuskólinn og frístundanámskeiðin taka við. Horfum björtum augum til sumarsins, sem ég vona að við öll njótum. Bestu kveðjur og ósk um góða helgi!