Safnahelgi á Suðurnesjum 2021

Safnahelgi á Suðurnejum verður haldin helgina 16. og 17. október 2021. 

Safnahelgi er samstarfsverkefni sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá í Sveitarfélaginu Vogum og er hún eftirfarandi, en alla dagskrána má svo finna á www.safnahelgi.is

 

Bókakynning og upplestur í bókasafninu í Vogum:

Laugardaginn 16. október verður upplestur í bókasafninu (í Stóru-Vogaskóla) kl. 14.00. Eygló Jónsdóttir, handhafi menningarverðlauna Sveitarfélagsins Voga árið 2021, les úr bókum sínum. Nemendur Stóru-Vogaskóla lesa upp úr eftirlætisbókum sínum og nemendur Tónlistarskólans í Vogum flytja tónlist.

 

Ljósmyndasýningar í Tjarnarsal:

Í Tjarnarsal verður boðið upp á sýningar á ljósmyndum ljósmyndara í Vogum. Atvinnuljósmyndarinn Gunnar Örn Árnason og áhugaljósmyndarinn María D. Halldórsdóttir sýna myndir sínar. Einnig verður boðið upp á sýningu af ljósmyndum sem Júlía Gunnarsdóttir hefur tekið af fuglum. Opið verður um ganga Stóru-Vogaskóla en þar má sjá fjölmargar bekkjarmyndir frá fyrri árum.

Sýningarnar í Tjarnarsal verða opnar milli kl. 13 og 16 báða dagana.

Sveitarfélagið Vogar býður gestum upp á veitingar í Tjarnarsalnum á meðan á sýningu stendur.

 

Ljósmyndasýning Lionsklúbbsins Keilis:

Lionsklúbburinn Keilir verður með ljósmyndasýningu frá starfsemi klúbbsins í húsnæði hans í Aragerði 4, en Lionsklúbburinn varð 46 ára á árinu. Opið er milli kl. 13 og 16 báða dagana.

Gestum er boðið upp á kaffisopa.

 

Gamli skólinn í Norðurkoti:

Sögu- og minjafélag Vatnsleysustrandar og Heilsuleikskólinn Suðurvellir standa að sameiginlegri ljósmyndasýningu, en leikskólahald í Sveitarfélaginu Vogum er 50 ára í ár og leikskólinn er 30 ára. Sýningin er í gamla skólanum í Norðurkoti sem er nú staðsettur inn við Kálfatjarnarkirkju og stendur yfir milli kl. 13 og 16 báða dagana. Sýndar verða myndir frá starfi leikskólans frá 1971 til dagsins í dag.